Fjölbreytt verkefni sveitarfélaga

Verkefni sveitarfélaga eru mörg og fjölbreytt og getur verið krefjandi að halda utan um öll þau verkefni. Einnig geta verkefnin verið lögskyld eða lögheimild ásamt því sem sveitarstjórnarlögin gefa sveitarstjórnum mikið svigrúm til að meta hvort æskilegt sé að taka að sér verkefni sem ekki er kveðið á um í lögum.

Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga skal samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið birta árlega yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga og birti ráðuneytið uppfærðan lista þann 15. júlí sl. Er listanum ætlað að veita ákveðna heildaryfirsýn yfir starfsemi sveitarfélaga án þess þó að vera sjálfstæð réttarheimild. Ráðast því skyldur sveitarfélaga af viðkomandi lögum en ekki listanum sjálfum.

Sambandið hvetur sveitarstjórnarmenn, starfsmenn sveitarfélaga og áhugafólk um starfsemi sveitarfélaga til að kynna sér yfirlit yfir lögmælt verkefni sveitarfélaga og í frétt ráðuneytisins kemur fram að öllum er frjálst að koma ábendingum á framfæri við ráðuneytið ef eitthvað má betur fara.