Fjarvinna – tækifæri fyrir sveitarfélög?

„Á ég að borga 700 þúsund kall á mánuði fyrir stúdíóíbúð í New York, eða á ég bara að vera á Þingeyri?“

Þessari spurningu varpaði Kristinn Árni L. Hróbjartsson, ritstjóri nýsköpunarvefsins Northstack, fram í samtali við Kjarnann nýverið. Tilefnið er jákvæð reynsla bæði atvinnurekenda og starfsfólks af fjarvinnu í yfirstandandi heimsfaraldri og ákvörðun fyrirtækja á borð við Twitter og Facebook um að þorri starfsmanna þurfi aldrei að mæta aftur á skrifstofuna, heldur geti unnið í fjarvinnu til frambúðar. Þessari þróun ætti Ísland að byggja á og reyna að fá hingað sérfræðinga sem starfa fyrir erlend fyrirtæki til bæði skammtíma- og langtímabúsetu, sagði Kristinn enn fremur.

Frá Flateyri. Ljósm.: Ingibjörg Hinriksdóttir

Hugmyndin er ekki ný af nálinni, en reynsla undanfarinna mánaða og sú stafræna bylting sem nú á sér stað gefur henni byr undir báða vængi. Í kjölfar faraldursins mun t.d. Evrópusambandið leggja enn ríkari áherslu á stafræna uppbyggingu Evrópu og þau tækifæri sem í henni felast.

Tækifærin liggja víða og sveitarfélög eru þar engin undantekning. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur því skilgreint stafræna þróun sem forgangsmál og stóð nýverið fyrir ráðstefnu undir heitinu „Stafræn þróun sveitarfélaga - hvaða árangri viljum við ná?“. Vegna kórónaveirunnar og í anda stafrænnar framtíðar þá fór ráðstefnan fram í gegnum Zoom.

„Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll“

Í grein sem Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, nýsköpunar og iðnaðarráðherra birti á dögunum sagði hún að búseta á Íslandi væri „lottóvinningur“ og hér á landi gætum við boðið sérfræðingum alþjóðlegra tæknifyrirtækja og fjölskyldum þeirra upp á ómetanleg lífsgæði. Ef við gerum þeim auðvelt fyrir að setjast hér að græðum við öll, sagði Þórdís Kolbrún.

Frá New York

Vinna sem hefur það að markmiði er hafin,“ sagði Þórdís Kolbrún enn fremur og þá má spyrja hvort þetta sé ekki eitthvað sem íslensk sveitarfélög ættu að huga að? Ef við höldum áfram með dæmið sem Kristinn tók, „eða á ég bara að vera á Þingeyri“ þá er vert að skoða hvað íslensk sveitarfélög geti gert til þess að auðvelda sérfræðingum alþjóðlegra fyrirtækja að flytja til Íslands.

Áður en áfram er haldið er rétt að taka fram að þetta eru hugleiðingar í tengslum við þau tækifæri sem kunna að skapast vegna áhuga bæði atvinnurekenda og starfsmanna á aukinni fjarvinnu. Almenn innflytjendamál eru hins vegar allt annað mál og ekki til umfjöllunar í þessum pistli.

Eins og staðan er í dag er erfitt fyrir erlenda sérfræðinga, frá löndum utan EES, að fá dvalarleyfi á Íslandi. Þá þarf að huga að aðgengi að grunnþjónustu t.d. heilsugæslu og eins eru skattamál atriði sem þarf að leysa. Þetta eru allt grundvallaratriði og á valdsviði ríkisins. En hvað með allt hitt, leik- og grunnskóli, húsnæði, sundlaug, íþróttamiðstöð, félagslíf, menningarlíf, háhraða nettengingu? Þetta er t.d. allt til staðar á Þingeyri og þar er meira að segja að finna innviði sem hannaðir eru fyrir fjarvinnu sem frumkvöðlamiðstöðin Blábankinn hefur unnið að.

Sömu sögu er að segja víða um land, þar er allt til alls fyrir þá sem vilja vinna í fjarvinnu. Lykilatriðið er hins vegar, rétt eins og Þórdís Kolbrún bendir á, að auðvelda sérfræðingum að flytja til Íslands um lengri eða skemmri tíma. Þá komum við aftur að stafrænu byltingunni. Það má vel sjá fyrir sér að sveitarfélög sem hafa áhuga og burði til að taka við nýju fólki í fjarvinnu til lengri eða skemmri tíma bjóði upp á einfalt app, köllum það t.d. „Ísafjarðarbær já takk“. Fyrst stæði valið á milli Flateyrar, Ísafjarðar, Suðureyrar eða Þingeyrar. Þá er að velja hvers konar húsnæði er í boði, þarf viðkomandi á leik- eða grunnskólaplássi að halda, aðstöðu í Blábankanum, árskort í sundlaugina, nettengingu, o.s.frv.? Það sem snýr að dvalarleyfi, heilsugæslu, skattamálum, o.s.frv. er síðan að finna í sama appi fyrir tilstuðlan ríkisins. Allt er á sama stað og innan ásættanlegs tíma fær viðkomandi eftirfarandi viðbrögð: Dvalarleyfi þitt og skattkort er samþykkt. Upplýsingar varðandi útsvar og aðstöðugjald. Dóttur þinni stendur til boða pláss í leikskólanum og syni þínum í grunnskólanum. Þú hefur úr eftirfarandi húsnæði að velja. Þú hefur úr þessum möguleikum að velja varðandi nettengingu. Þú ert kominn með aðstöðu í Blábankanum. Fjölskylda þín er komin með árskort í sundlaugina. Velkomin/n til Þingeyrar.

„Krúttleg byggðastefna“

Það er ljóst að sífellt fleira starfsfólk, bæði innlent og erlent, verður ráðið án staðsetningar í framtíðinni. Samband íslenskra sveitarfélaga auglýsti t.d. nýverið eftir sérfræðingi án staðsetningar. Þá má ekki gleyma öllum þeim sem starfa sjálfstætt, eða sem verktakar. Listinn yfir þá sem geta unnið hvar sem er, að því gefnu að þau hafi aðgang að háhraða nettengingu, er stöðugt að lengjast. Listamenn, hönnuðir, arkitektar, verkfræðingar, forritarar, áhrifavaldar, o.s.frv. Þessu til viðbótar eru síðan öll störfin sem fólk sem komið er yfir miðjan aldur veit varla að séu til og öll nýju störfin sem eiga eftir að verða til í tengslum við áframhaldandi þróun í stafrænni tækni.

Þá eru margir sem kjósa að búa og starfa á svæði sem hentar áhugamálum þeirra. Þetta kann að hljóma sem forréttindi, en af hverju ekki? Þeir sem hafa menntun eða færni til þess að starfa hvar sem er geta valið að búa á stað sem uppfyllir þeirra væntingar. Vissulega skipta ákveðnir grunnþættir miklu máli, heilsugæsla, leik- og grunnskólar, o.s.frv. En ertu aðdáandi íslenska hestsins, þá flytur þú í Skagafjörðinn. Ertu heltekinn af fjallaskíðum, þá flytur þú á Tröllaskagann. Áttu sjókajak og líður best í gönguskóm, þá flytur þú á Vestfirði.

Í samtalinu við Kjarnann kallar Kristinn þetta „krúttlega byggðastefnu“. Hvað sem við köllum þetta þá er staðreyndin sú að sífellt fleiri munu eiga kost á því að starfa hvar sem er í heiminum og þá má réttilega spyrja hvers vegna ekki á Þingeyri.

Í þessu samhengi er mikilvægt að skoða vandlega hver sé ávinningurinn af „krúttlegri byggðastefnu“. Sveitarfélagið fær t.d. ekki nema að takmörkuðu leyti útsvarstekjur frá íbúum sem þessum, þetta getur valdið sveiflum í fjölda nemanda í leik- og grunnskólum, o.s.frv. Það má hins vegar vel ímynda sér að sveitarfélagið geti innheimt aðstöðugjald sem e.t.v. væri þá greitt af fyrirtæki viðkomandi starfsmanns. Þá má spyrja hver sé hugsanlegur ávinningur samfélagsins. Er jákvætt fyrir samfélagið að fólk kjósi að setjast þar að tímabundið? Blábankinn á Þingeyri hefur meðal annars opnað dyr sínar fyrir „stafrænum flökkurum“, sem er fólk sem vill ferðast en getur unnið á sama tíma. Hver er samfélagsleg reynsla Þingeyrar og Ísafjarðarbæjar af því?

Hvers vegna ekki Fjarðarbyggð frekar en Reykjavík

Vinna sem miðar í þessa átt er reyndar þegar farin af stað, sagði Þórdís Kolbrún í téðri grein. Þá á hún væntanlega við þá þætti sem snúa að dvalarleyfi, skattamálum, o.s.frv. Það eru vissulega jákvæðar fréttir, en hvað geta sveitarfélög gert á meðan? Er kannski ráð að við horfum til nærumhverfis okkar til að byrja með? Hér á landi eiga margir kost á því að vinna hvar sem er og undanfarnir mánuður hafa sýnt okkur að þeir eru fleiri en okkur grunaði. Þá mun stafræn tækni hraða þeirri þróun enn frekar á næstu árum.

Hingað til hafa það helst verið hinar dreifðu byggðir sem glíma við fólksfækkun og hefur straumur fólks legið til höfuðborgarsvæðisins. En má vera að ný tækni og breytt hugarfar geti haft áhrif á þessa þróun? Svo aftur sé vitnað í dæmi Kristins, hvers vegna ekki Þingeyri frekar en New York, þá gætu sömu rök allt eins átt við um hvers vegna ekki Fjarðabyggð frekar en Reykjavík?