Skráning hafin á Fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Skráning er hafin á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Meginþema ráðstefnunnar snýr að þessu sinni að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, gráum svæðum í opinberri þjónustu og stöðu sveitarfélaga gagnvart stórum þjónustuverkefnum. Ráðstefnan hefur jafnan verið fjölmennasti viðburður sveitarfélaganna, með um og yfir 400 þátttakendur á ári hverju. 

Skráning er hafin á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Meginþema ráðstefnunnar snýr að þessu sinni að verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, gráum svæðum í opinberri þjónustu og stöðu sveitarfélaga gagnvart stórum þjónustuverkefnum. Ráðstefnan hefur jafnan verið fjölmennasti viðburður sveitarfélaganna, með um og yfir 400 þátttakendur á ári hverju. 

Dagskráin hefst á setningu formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og ávarpi forsætisráðherra og að því búnu fara fram almennar umræður og fyrirspurnir. Í septemberlok lætur Halldór Halldórsson, sem kunnugt er, af formennsku hjá sambandinu og það verður því nýkjörinn formaður af landsþingi sveitarfélaga sem standa mun ásamt Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra, fyrir svörum.

Að umræðum og fyrirspurnum loknum tekur síðan hvert erindið við af öðru og er óhætt að segja að fjöldi áhugaverðra fyrirlesara prýði dagskrána þann hálfa annan dag sem ráðstefnan stendur yfir.

Á meðal fyrirlesara fyrri daginn eru Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri Analytica, sem segir frá nýrri greiningu á fjárhagslegri sjálfbærni sveitarfélaga, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, sem segir frá sýn notenda á misræmi í þjónustu ríkis og sveitarfélaga og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri í Skagafirði, sem gerir í erindi sínu mismunandi formum skil á samstarfsverkefnum sveitarfélaga.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir enn fremur frá þeirri þróun sem einkennt hefur verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga og Sigrún Þórarinsdóttir, félagsþjónustufulltrúi sambandsins, gerir gráum svæðum í opinberri þjónustu skil.

Jafnframt rýna Henný Hinz, hagfræðingur ASÍ og Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins, annars vegar stöðuna í efnahagsmálum og hins vegar afkomu sveitarfélaga til næstu ára. Þá ávarpar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ráðstefnuna og flytur ráðherra ávarp sitt strax að hádegisverði loknum.

Botninn í umræðuna þennan fyrri ráðstefnudag slær síðan Sigurður H. Helgason, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneytinu og mun hann greina frá sjónarmiðum ríkisins hvað varðar verkaskiptingu og samstarf ríkis og sveitarfélaga. 

Síðari ráðstefnudaginn fara samhliða fram málstofur sem helgaðar eru sínu sviði hver í rekstri sveitarfélaga og skiptast í (1) fjármál , (2) fræðslumál, (3) velferðarmál og  (4) innviði og uppbyggingu. Er hver málstofan annarri áhugaverðari og er óhætt að hvetja áhugasama að kynna sér dagskrá þeirra nánar á hlekknum hér að neðan. Málstofum var fjölgað úr tveimur í fjórar á síðasta ári og spurðist sú nýbreytni vel fyrir.