10. okt. 2016

Yfirlýsing ríkis og sveitarfélaga vegna stöðu lífeyrismála opinberra starfsmanna

Heildarsamtök opinberra starfsmanna hafa lýst því yfir að efni lagafrumvarps um breytingu á lögum um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins sé ekki í fullu samræmi við samkomulag sem samtökin gerðu við ríki og sveitarfélög og undirritað var þann 19. september sl. Virðast heildarsamtökin telja að samkomulagið hafi falið í sér ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum A-deilda lífeyrissjóða næstu 20 árin.

Að mati fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga er fullt samræmi milli samkomulagsins og lagafrumvarpsins. Fulltrúar ríkisins og sambandsins höfðu margoft tekið skýrt fram við forsvarsmenn heildarsamtakanna að ótakmörkuð bakábyrgð til langs tíma kæmi ekki til greina. Svo virðist sem fulltrúar a.m.k. hluta heildarsamtakanna hafi misskilið mikilvæg ákvæði samkomulagsins og talið að þau veittu ríkari ábyrgð launagreiðenda en raun ber vitni. Í tengslum við undirbúning lagafrumvarpsins var haft ítarlegt samráð við fulltrúa heildarsamtakanna sem fengu tækifæri til að fara yfir lagafrumvarpið og bera ákvæði þess saman við samkomulagið. Við þá yfirferð kom ekki fram það sjónarmið að samkomulagið fæli í sér ótakmarkaða ábyrgð launagreiðenda á skuldbindingum A-deilda.

Þegar breytt afstaða heildarsamtakanna lá fyrir voru ríki og sveitarfélög reiðubúin til að ræða afmarkaðar breytingar á fyrirkomulagi ábyrgðar launagreiðenda en samtökin höfðu ekki áhuga á að vinna að slíku samkomulagi.

Ríki og sveitarfélög harma þá stöðu sem upp er komin í þessu máli. Unnið hefur verið að breytingum á fyrirkomulagi lífeyrismála í góðu samstarfi undanfarin ár. Nú er einstakt tækifæri til að ljúka málinu og stuðla að mikilvægum framförum á sviði lífeyrismála landsmanna og vinna að þróun nýrra vinnubragða við gerð kjarasamninga. Þá veitir jöfnun lífeyrisréttinda tækifæri til jöfnunar launa milli almenna og opinbera vinnumarkaðarins sem erfitt er að ná fram við óbreytta skipan lífeyrismála opinberra starfsmanna.