06. feb. 2020

Útboðsvefur.is – er þitt sveitarfélag skráð?

Athygli sveitarfélaga er vakin á því öll innkaup sveitarfélaga á vörum, þjónustu og verki yfir viðmiðunarfjárhæðum skulu auglýst rafrænt á útboðsvefur.is. Þannig geta bjóðendur nálgast öll útboð er falla undir lögin á einum stað.

Með því að tryggja bjóðendum aðgang að miðlægum vettvangi er verið að fella hindranir og auka möguleika bjóðenda á þátttöku í opinberum innkaupum auk þess að stuðla að auknu jafnræði og gagnsæi við innkaup. Um gjaldfrjálsan vettvang er að ræða og er heimilt að auglýsa þar einnig útboð sem eru undir viðmiðunarfjárhæðum til að tryggja gegnsæi. Hver auglýsing bendir á upprunasvæði þar sem allar nánari upplýsingar um útboðið eru birtar. Með upprunasvæði er átt við þann vettvang er sveitarfélög hafa valið til að auglýsa útboð, en í flestum tilfellum er það heimasíða sveitarfélagsins.

Mikilvægt er því að öll sveitarfélög skrái sig fyrir gjaldfrjálsum aðgangi að útboðsvefnum og setji þar inn öll útboð yfir viðmiðunarfjárhæðum, þ.e. yfir 15.500.000 kr. þegar kemur að innkaupum á vörum eða þjónustu og yfir 49.000.000 kr. þegar kemur að verklegum framkvæmdum.

Ákvæði um keðjuábyrgð tóku gildi um seinustu áramót

Um síðustu áramót tóku gildi breytingar á lögum um opinber innkaup þar sem nýju ákvæði um keðjuábyrgð verktaka var bætt inn í lögin. Meginmarkmið ákvæðisins er að sporna við mögulegri misnotkun á vinnuafli hér á landi í opinberum innkaupum í samræmi við stefnu stjórnvalda um að vinna gegn félagslegum undirboðum og brotum á vinnumarkaði. Þá á ákvæðið einnig að koma í veg fyrir undirboð og óeðlilega samkeppnishætti á vinnumarkaði.

Samkvæmt ákvæðinu er lögð sú skylda á aðalverktaka að hann tryggi og beri ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleigna, sem koma að framkvæmd samnings, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingu og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni.

Sveitarfélögum ,sem kaupanda, ber skylda til að gera grein fyrir ábyrgð aðalverktaka í útboðsgögnum. Sveitarfélögum er einnig heimilt, að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, að greiða vangoldnar verktakagreiðslur til undirverktaka og annarra starfsmanna á kostnað aðalverktaka standi hann ekki í skilum með greiðslur og ákvæði þess efnis er í útboðsgögnum.

Fjármálaráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um framkvæmd keðjuábyrgðar.

Fræðsla um örútboð fyrir kaupendur

Að lokum vill sambandið benda á að 14. febrúar nk. kl. 14:00-15:00 fer fram fræðsla um örútboð fyrir kaupendur í samvinnu Ríkiskaupa og sambandsins. Fræðslufundurinn fer fram í húsakynnum okkar að Borgartúni 30 í Reykjavík en verður jafnframt sendur út á vef okkar www.samband.is/beint.

Þeir sem hyggjast mæta á fundin þurfa að skrá sig á vef Ríkiskaupa.