29. jan. 2016

Upplýsingar um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga 2016 og 2016-2019

Hag- og upplýsingasvið sambandsins hefur gefið út tvö fréttabréf er varða fjárhagsáætlanir sveitarfélaga árin 2016-2019.

Í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árið 2016 kemur fram að á árinu er heldur minni áhersla lögð á niðurgreiðslu lána miðað við fyrri ár en fjárfestingar vaxa milli ára. Ekki er annað að sjá að sú áherslubreyting standi á styrkum stoðum fyrir heildina tekið.

Almennt má segja að samkvæmt niðurstöðum fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir árið 2016 þá sé afkoma þeirra og fjárhagsstaða í heildina tekið jákvæð. Veltufé frá rekstri er þokkalegt þótt svo að hlutfall þess af heildartekjum standi í stað milli ára. Hafa ber vakandi auga á þróun þess því það ræður miklu um hvernig afkoma sveitarfélaganna þróast. Kostnaðarsamir kjarasamningar marka óhjákvæmilega sín spor í rekstur sveitarfélaganna. Fjárfestingar sveitarfélaga munu vaxa nokkuð frá fyrra ári en engu að síður verða lán áfram greidd niður töluvert umfram nýja lántöku. 

Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga 2016-2019

Í fjárhagsáætlunum sveitarfélaga fyrir árin 2016-2019 fæst nokkuð greinargott yfirlit um hvert stefnir í fjármálum sveitarfélagageirans til næstu ára. Í skýrslunni sem hér fylgir á eftir eru niðurstöður birtar fyrir öll sveitarfélög í heild. Ekki er farið út í niðurbrot á niðurstöðum fyrir einstaka flokka sveitarfélaga eins og gert er þegar unnið er með niðurstöður fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Í heildina tekið þá er útlitið heldur gott í heildina tekið hjá sveitarsjóðum á árunum 2016-2019 miðað við niðurstöður úr fjárhagsáætlunum til fjögurra ára. Rekstrarafgangur fer vaxandi, veltufé frá rekstri vex, lántaka minnkar og veltufjárhlutfall og skuldahlutfall styrkist. Fjárfestingum í varanlegum rekstrarfjármunum lækka heldur undir lok tímabilsins. Vitaskuld eykst óvissan um endanlega útkomu eftir því sem lengra líður á áætlunartímabilið. Því gefa þessar niðurstöður fyrst og fremst ákveðnar vísbendingar um í hvaða átt stefnir á ýmsum sviðum í fjármálalegu umhverfi sveitarfélaganna á komandi árum.