25. sep. 2015

Undanþágubeiðnir brátt afgreiddar í velferðarráðuneyti

 

 

Velferðarráðuneytið mun fljótlega afgreiða beiðnir nokkurra sveitarfélaga um undanþágu frá því að uppfylla lagaskilyrði um lágmarksfjölda íbúa innan þjónustusvæðis vegna málefna fatlaðs fólks. Nokkrum sveitarfélögum var veitt slík undanþága í febrúar 2015.

 

 

Eygló Harðardóttir velferðarráðherra sagði á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær að skýrar heimildir til að veita undanþágu væri að finna í lögum, vegna landfræðilegra aðstæðna og getu til að veita lögbundna þjónustu. Í ráðuneytinu væri verið að „leggja lokahönd á afgreiðslu fyrirliggjandi beiðna“ um undanþágu.

 

 

Hún vék einnig að endurmati á framkvæmd yfirfærslu málefna fatlaðs fólks til sveitarfélaga og sagði þá vinnu hafa tekið lengri tíma en til hafi staðið en bætti við: „Mér sýnist að við sjáum brátt fyrir endann á því máli.“

 

 

Í lok ávarps síns vék ráðherra að öðru málefni sem „töluvert hefur verið rætt og stundum af miklum tilfinningahita, bæði nú og áður“ – heimildar fyrir sveitarfélög til að skilyrða fjárhagsaðstoð:

 

 

„Eftir því sem ég kemst næst var frumvarp um þetta efni fyrst lagt fram á Alþingi árið 1996 en því var þá synjað og sama gerðist þegar frumvarp þessa efnis fór fyrir Alþingi árið 2009. Bæði einstök sveitarfélög og Samband íslenskra sveitarfélaga hafa ítrekað óskað eftir þessari heimild og ég tel að í frumvarpi, sem lagt verður fram nú á haustþingi, sé búið að skapa slíkum skilyrðingum vandaða umgjörð sem verður til bóta og í þágu einstaklinganna, sem málið á allt að snúast um, verði frumvarpið að lögum.“