23. mar. 2017

Umsögn um frumvarp um afnám lágmarksútsvars

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis umsögn um frumvarp til laga um breytingu á tekjustofnalögum sem felur í sér afnám lágmarksútsvars.

Frumvarpið er endurflutt og vísar Samband íslenskra sveitarfélaga til ítarlegrar umsagnar frá 144. löggjafarþingi um sama mál.

Að áliti sambandsins getur sú lagabreyting sem lögð er til í frumvarpinu á engan hátt talist forgangsmál. Sambandið hefur hins vegar á undanförnum misserum beitt sér fyrir því að unnið verði að breytingum til að færa sveitarfélögum auknar tekjur af ferðamönnum með því að þau fái hlutdeild í tekjum af gistináttaskatti, sbr. meðfylgjandi skýrslu starfshóps sem stjórn sambandsins skipaði á sl. ári. Sambandið leggur áherslu á að viðræður verði hafnar milli ríkis og sveitarfélaga um það mál.

Einnig hefur sambandið lagt áherslu á að að sveitarfélögin fái auknar tekjur af raforkuframleiðslu. Þess verði sérstaklega gætt að skatttekjur sveitarfélaga af skattskyldum virkjanamannvirkjum skiptist ekki eingöngu eftir því hvar virkjanamannvirki eru staðsett heldur verði einnig tekið sanngjarnt tillit til umhverfisáhrifa virkjana og flutningskerfis raforku á nærliggjandi sveitarfélög.

Sambandið lýsir áhuga á að ræða við efnahags- og viðskiptanefnd um framangreindar áherslur.