26. sep. 2017

Sex mánaða uppgjör stærstu sveitarfélaganna

  • Sex-manadauppgjor-efnahagsreikningur-2017

Heildartekjur Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar og Akureyrarkaupstaðar jukust um tæp 11% á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman árshlutauppgjör þessara sveitarfélaga. Alls búa um 60% landsmanna í sveitarfélögunum fjórum.

Sveitarfélögum er ekki skylt að lögum að birta árshlutauppgjör. Þeim sveitarfélögum sem gefið hafa út skuldabréf sem skráð eru í kauphöll er hins vegar gert að skila árshlutauppgjöri til kauphallar.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman uppgjör stærstu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu ásamt Akureyri, en í þessum fjórum sveitarfélögum búa rúmlega 60% landsmanna. Samantekt sambandsins tekur eingöngu til A-hluta starfseminnar, þ.e. þess hluta sem fjármagnaður er að stærstum hluta af skattfé.

Sex-manadauppgjor-2017Heildartekjur sveitarfélaganna voru samtals 89,1 ma.kr. á fyrstu sex mánuðum ársins,  samanborið við 80,4 ma.kr.  á sama tíma í fyrra og nemur hækkunin 10,8 ma.kr. Skatttekjur án jöfnunarsjóðs (þ.e. útsvar og fasteignaskattur) hækkuðu um 9,8 % en aðrar tekjur um 12,8%. Til samanburðar má nefna að vísitala neysluverðs hækkaði um 1,8% milli þeirra tímabila sem hér um ræðir (án húsnæðisliðar lækkaði vísitalan um 1,9%) og launavísitala hækkaði um 6,5%.

Rekstrargjöld jukust úr 77,8 ma.kr. í 83,1 ma.kr. eða um 6,8%. Laun og launatengd gjöld hækkuðu um 9,1%. Lífeyrisskuldbindingar jukust um 1 ma.kr. meira en í fyrra og er annars vegar um að ræða áhrif launahækkana en hins vegar aukin skuldbinding gagnvart A-deild Brúar. Annar rekstrarkostnaður hækkaði um 1,2% og afskriftir um 1,8%.

Rekstrarniðurstaðan var jákvæð um 4,7 ma.kr. sem er 5,3% af tekjum. Hér er um að ræða umtalsverð umskipti frá árinu áður er rekstrarafgangur var 753 m.kr., tæplega 1% af  tekjum.   

Heildareignir þessara sveitarfélaga námu í júnílok samtals 295,9 ma.kr. og höfðu þær hækkað um 16,4 ma.kr frá áramótum. Skuldir og skuldbindingar hækkuðu um 11,7 ma.kr. frá áramótum og námu í júnílok um 183 ma.kr.

Sex-manadauppgjor-efnahagsreikningur-2017Jöfnun lífeyrisréttinda milli almenna og opinbera markaðarins hafði í för með sér breytingar á lögum um LSR og samþykktum Brúar lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga. Sveitarfélögum var gert skylt að gera annars vegar upp áfallinn halla A-deildar og hins vegar greiða inn í Brú vegna framtíðarskuldbindingar auk greiðslna inn í varúðarsjóð. Gert er ráð fyrir uppgjör einstakra sveitarfélaga gagnvart Brú liggi fyrir nú á haustdögum. Þau sveitarfélög sem hér um ræðir tóku ný langtímalán að fjárhæð um 8,1 ma.kr. og er fyrst og fremst um að fjármögnun vegna fyrrnefnds uppgjörs gagnvart lífeyrissjóðnum Brú.

Sex-manadauppgjor-sjodsstreymi-2017Veltufé frá rekstri nam 10,6 ma.kr. eða um 12% af heildartekjum, samanborið við 11,5% í fyrra. Fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum jukust úr tæpum 6 ma.kr. í 6,5 ma.kr. eða um 8,9%. Þær eru að stórum hluta fjármagnaðar af gatnagerðagjöldum og sölu byggingaréttar sem hér eru færð undir liðnum „aðrar fjárfestignarhreyfingar“. Undir þann lið er einnig bókuð hækkun á langtímakröfum hjá einu sveitarfélaganna vegna uppgjörs við Brú.