19. feb. 2016

Samráðsfundur um áhrif laga um opinber fjármál á sveitarfélögin

Lög um opinber fjármál nr.123/2015 eru komin til framkvæmda.  Í 11. gr. laganna er fjallað um samskipti og samráð ríkis og sveitarfélaga. Sambandið kom að mótun þessarar lagasetningar og hefur þróun og staða málsins hverju sinni verið kynnt fyrir sveitarfélögum á fjármálaráðstefnum og landsþingum undanfarin ár.

Formlegt samráðsferli er nú hafið og fyrir hönd sveitarfélaga koma starfsmenn sambandsins, samráðsnefnd ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál, samstarfsnefnd ríkis og sveitarfélaga – Jónsmessunefnd –, og stjórn sambandsins, að því á ýmsum stigum. Hluti þessa ferlis er sameiginlegur fundur fulltrúa allra sveitarfélaga um málið.

Þessi samráðsfundur var haldinn  fimmtudaginn 18. febrúar sl. í Grand hóteli, Reykjavík. Fundinn sóttu um 60 fulltrúar sveitarfélaga, auk þess sem töluvert margir fylgdust með honum í beinni útsendingu á vef sambandsins.

Auk þess sem farið var yfir samráðsferlið, efnisatriði væntanlegs samkomulag ríkis og sveitarfélaga um fjármálaáætlun um opinber fjármál,  og ýmsar tölulegar upplýsingar vegna framangreindra laga, var fjallað um þann hluta tekjustofna sveitarfélaga sem fellst í hlutdeild sveitarfélaga í svokölluðum bankaskatti. Einnig var farið yfir stöðu lífeyrismála opinberra starfsmanna. Framsögur um þessi mál höfðu Halldór Halldórsson, formaður stjórnar sambandsins, Karls Björnsson framkvæmdastjóri og Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins.

Miklar og fjörugar umræður fóru fram á fundinum. Góð samstaða kom fram um þann þátt sem snýr að sveitarfélögunum í samráðinu við ríkið á grundvelli laga um opinber fjármál. Á hinn bóginn voru skiptar skoðanir um bankaskattsmálið. Um lífeyrismálin var einnig rætt en ljóst er að ófjármagnaður halli A-deilda lífeyrissjóða LSR og LSS, sem sveitarfélögin bera ábyrgð á, er mikill og við honum þarf að bregðast.