27. des. 2010

Uppgjör framlaga úr Jöfnunarsjóði 2010 og almenn framlög vegna grunnskóla 2011

  • SIS_Skolamal_760x640

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur jafnframt samþykkt tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 17. desember síðastliðinn um endurskoðun og uppgjör  eftirfarandi framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga  á árinu 2010.

Tekjujöfnunarframlög 2010

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun tekjujöfnunarframlaga fyrir árið 2010, sbr. 12. gr. reglugerðar nr. 113/2003. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga  vegna tekna ársins 2009.

Heildarúthlutun tekjujöfnunarframlaga í ár nemur rúmlega 1.222 m.kr. Til greiðslu í október komu rúmlega 931 milljón króna. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 291 milljón koma til greiðslu í dag.

Útgjaldajöfnunarframlög 2010

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2010, sbr.  13. gr. reglugerðar nr. 113/2003. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. desember 2009.

Heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár nemur 4.000 milljónum króna. Til greiðslu á árinu hafa komið 3.292 milljónir. Eftirstöðvar framlaganna að fjárhæð 708 milljónir koma til greiðslu  milli jóla og nýars.

Aukaframlag 2010

Farið hefur fram endurskoðun á útreikningi og úthlutun 1.000 milljóna króna aukaframlags úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2010. 

Úthlutun framlagsins byggir á reglum, nr. 815/2010, sem settar voru af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Aukaframlaginu er ætlað að bæta rekstrarstöðu sveitarfélaga á árinu.

Við útreikning framlags er tekið mið af íbúaþróun og þróun heildartekna í sveitarfélögum á tilteknu árabili, lágum meðaltekjum, íþyngjandi skuldum og útgjaldaþörf fjölkjarna sveitarfélaga. Við ákvörðun um úthlutun framlagsins er m.a. tekið mið af ársreikningum sveitarfélaganna fyrir árið 2009.

Aukaframlagið er greitt sveitarfélögum í tvennu lagi. Í október komu 750 milljónir króna til greiðslu. Uppgjörsgreiðsla framlagsins að fjárhæð 250 milljónir fer fram í dag.

Almenn jöfnunarframlög vegna grunnskóla á árinu 2011

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur einnig samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 17. desember síðastliðinn um áætlaða úthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla á árinu 2011.

Ráðgjafarnefndin leggur til að áætlun um heildarúthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla á árinu 2011, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 351/2002, nemi allt að 4.625 milljónum króna. Þar af eru 60 milljónir vegna uppgjörs framlaga ársins 2009 þar sem endanlegur álagningarstofn útsvars þess árs liggur nú fyrir.

Að tillögu starfshóps um heildarendurskoðun á gildandi laga- og reglugerðarákvæðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga hefur verið gerð sú breyting á útreikningi framlaganna að ekki er lengur tekið mið af meðallaunum kennara.