29. nóv. 2010

Endurskoðuð þjóðhagsspá fyrir árin 2010-2015

 • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Hagstofa Íslands gaf út endurskoðaða þjóðhagsspá þann 23. nóvember. Spáin nær yfir árin 2010 – 2015 eins og fyrri spá fyrir sama tímabil sem kom út um  miðjan júní.

Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands í nóvember 2010 er öllu svartsýnni en sú spá sem gefin var út í júní sl. Þá var gert ráð fyrir að samdráttur einkaneyslu yrði minni en nú er gert ráð fyrir. Sama má segja um samneysluna. Útlit með vöxt útflutnings er verra nú en var fyrr á árinu og hann virðist ætla að vaxa hægar en þá var gert ráð fyrir. Nóvemberspáin gerir ráð fyrir að verg landsframleiðsla dragist  heldur meira saman   en gert var ráð fyrir í júní og vaxi hægar þar á eftir en þá var ráð fyrir gert. Reyndar er samdrátturinn aðeins um 0,1% sem ætti að vera innan skekkjumarka. Engu að síður er gert ráð fyrir því í nóvemberspánni að atvinnuleysi verði minna en gert var ráð fyrir í júníspánni.

Erfitt er að sjá samhengi þess að almenn eftirspurn minnkar, þ.e. samneysla dragist saman um 4,3% á árinu 2011, raunsamdráttur verði í fjárfestingum hins opinbera á árinu 2011, útflutningur aukist óverulega en atvinnuleysi minnki engu að síður um 0,9%stig. Erfitt er að sjá hvernig það gengur upp nema að flutningar fólks úr landi séu áætlaðir meiri en ráð var fyrir gert.

Efnahagsbati í þróuðum ríkjum er að miklu leyti háður því að almenn eftirspurn vaxi, þ.m.t að einkaneysla aukist. Aukin eftirspurn leiðir til betri nýtingu framleiðsluþátta og þar með minnkandi atvinnuleysi.  Hins vegar glíma mörg ríki nú við vandamál sem rekja má til opinberra skulda og þurfa því að draga úr samneyslu og öðrum útgjöldum. Svo er einnig hérlendis. Samdráttur og lítill vöxtur einkaneyslu er enn einn helsta fyrirstaða hagvaxtar í þróuðum ríkjum sökum atvinnuleysis, slaka á húsnæðismarkaði og erfiðu aðgengi að lánsfé.

Verðbólga í okkar helstu viðskiptalöndum er áætluð 1,5%. Verulegur hluti hennar kemur beint fram í verðlagi hérlendis í gegnum verð á innfluttum vörum. Kjarasamningar á vinnumarkaði eru að hefjast. Niðurstaða þeirra er óviss. Reiknað er með niðurstöðu þeirra sem einum af neikvæðum óvissuþáttum í spánni. Líkur eru á einhverjum hækkunum launa og jafnvel kaupmáttaraukningu ef verðbólga verður lág.

Almennt má segja að það stöðumat fyrir árið 2010 og sú framtíðarsýn fyrir árið 2011 sem birtist í þjóðhagsspá nóvembermánaðar 2010 bendi til þess að það verði heldur erfiðara bæði fyrir ríki og sveitarfélög að ná settu marki við afgreiðslu fjárlaga og fjárhagsáætlana en ætlað var. Fjármögnun á útgjöldum opinbera geirans grundvallast á stöðu framleiðsluatvinnuvega, útflutningsgreina og almennrar tekjuöflunar í landinu.      

Samandregið yfirlit um niðurstöður Þjóðhagsspár frá 23. nóvember 2010.

 1. Þjóðhagsspá Hagstofu Íslands nær yfir árin 2010 til ársins 2015. Hún var gefin út í júní sl. en er nú birt aftur, yfirfarin og endurskoðuð.
 2. Reiknað er með að verg landsframleiðsla (GDP) dragist saman um 3,0% árið 2010 en vaxi um 2,0% á árinu 2011. Það þýðir að líkur benda til þess að landsframleiðslan á næsta ári verði minni en hún var á árinu 2009.
 3. Gert er ráð fyrir að vísitala neysluverðs (verðbólga) hækki um 2,3% á árinu 2011 og um 2,5% á árinu 2012. Verðbólga í viðskiptalöndum okkar er áætluð á sama tíma 1,5%. Í þjóðhagsspá frá 15. júní 2010 var verðbólga á næsta ári áætluð 3,5% og var sú viðmiðun notuð við gerð fjárlagafrumvarps.
 4. Gengisvísitala kemur til með að lækka um 2,1% á árinu 2011 og um 0,6% á árinu 2012.
 5. Atvinnuleysi er áætlað 8,2% á árinu 2010, 7,3% á árinu 2011 og 5,6% á árinu 2012.
 6. Launavísitala hækki um 4,4% hvort ár á árunum 2011 og 2012. Í spánni er gert ráð fyrir að kjarasamningum ljúki fyrir árslok án mikilla launahækkana.
 7. Áætlað er að einkaneysla vaxi um 2,6% á árinu 2011 og 2,9% á árinu 2012.
 8. Gert er ráð fyrir hægfara aukningu útflutnings á næstu árum. Áætlað er að vöxtur útflutnings verði 1,0% á árinu 2011 og 2,0% á árinu 2012.
 9. Ekki er gert ráð fyrir fjárfestingu í Helguvík fyrr en á árinu 2012. Reiknað er með heldur meiri fjárfestingu í Straumsvík en áður. Annars er reiknað með heldur meiri atvinnuvegafjárfestingu á tímabilinu en gert var ráð fyrir í júníspá hagstofunnar. Eigi að síður er reiknað með minni fjárfestingu á árinu 2011 en í fyrri spá og er það meginástæðan fyrir spá um nokkru lægri hagvöxt og einkaneyslu fyrir árið 2011. Einn af óvissuþáttum spárinnar er að stóriðjuframkvæmdir verði minni á árinu 2012 og síðar.
 10. Gert er ráð fyrir íbúðafjárfesting aukist um 20,8% á næsta ári. Það er að vísu aukning frá mjög lágum grunni en engu að síður verður það að teljast nokkur bjartsýni.
 11. Gert er ráð fyrir að samneysla hins opinbera, ríkis, almannatrygginga og sveitarfélaga, dragist saman um 4,3% á árinu 2011 og um 2,2% á árinu 2012. Gert er ráð fyrir að samneysla dragist saman í heildina tekið um 10,0% á árunum 2010-2012.
 12. Gert er ráð fyrir raunsamdrætti í fjárfestingum hins opinbera árið 2011 um 19,0% og um 4,0% árið 2013.
 13. Gert er ráð fyrir að vextir lækki lítillega frá því sem nú er og haldist nokkuð stöðugir þar á eftir. Þó er reiknað með að þeir hækki á nýjan leik síðari hluta spátímabilsins þegar slaki í hagkerfinu eykst.