23. nóv. 2010

Ákvörðun útsvarshlutfalls 2011

  • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Sveitarstjórnir eru minntar á að skv. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga ber þeim að ákveða fyrir 1. desember nk. hvert álagningarhlutfall útsvars skal lagt á tekjur manna á næsta ári. Ákvörðun þessa skal jafnframt tilkynna fjármálaráðuneytinu fyrir 15. desember.

Starfsmönnum sambandsins hafa borist fyrirspurnir frá sveitarfélögum um hvernig rétt sé að haga ákvörðun útsvarshlutfallsins í ljósi þess að frá 1. janúar 2011 er fyrirhugað að þjónusta við fatlaða verði verkefni sveitarfélaga. Liður í þeirri verkefnatilfærslu er að gert er ráð fyrir breytingum á lögum um tekjustofna sveitarfélaga og lögum um tekjuskatt sem fela í sér að hámarksútsvar hækkar um 1,20 prósentustig og almennt tekjuskattshlutfall lækkar jafn mikið. Frumvörp um þessar breytingar og nauðsynlegar breytingar á lögum um málefni fatlaðra hafa verið afgreidd í ríkisstjórn. Frumvörpin hafa ekki verið lögð fram á Alþingi til afgreiðslu en það verður gert að lokinni undirritun heildarsamkomulags um yfirfærsluna, sem er fyrirhuguð kl. 14 í dag. Þótt töluverðar tafir hafi orðið á þessum málum er ekki gert ráð fyrir öðru en að fyrrgreindar lagabreytingar verði afgreiddar á Alþingi fyrir áramót, enda eru þær forsenda þess að tilfærslan geti átt sér stað.


Að höfðu samráði við ráðuneyti sveitarstjórnarmála telur sambandið rétt að beina því til sveitarstjórna að þær ákveði útsvarshlutfall næsta árs í samræmi við 24. gr. tekjustofnalaga en með fyrirvara um að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga. Niðurstaða í fundargerð sveitarstjórna um málið gæti þá hljómað á þessa leið:

Sveitarstjórn samþykkir að útsvarshlutfall árið 2011 verði óbreytt, þ.e. 13,28% (eða annað hlutfall sem sveitarstjórn ákveður), en með fyrirvara um að nauðsynlegar lagabreytingar nái fram að ganga á Alþingi um tilfærslu þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga og hækkun útsvarshlutfalls um 1,20 prósentustig sem af því leiðir, verður álagningarhlutfallið 14,48% á árinu 2011.