29. okt. 2010

Skýrsla Tekjustofnanefndar komin út

  • Tekjustofnanefnd

Tekjustofnanefnd, sem falið var að leggja fram tillögur um að styrkja og breikka tekjustofna sveitarfélaga, leggur til nokkrar tímabundnar ráðstafanir á þessu og næsta ári og síðan tillögur til framtíðar. Gunnar Svavarsson, formaður nefndarinnar, afhenti í dag Ögmundi Jónassyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skýrsluna til frekari úrvinnslu og umfjöllunar á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga.

Samstarfssáttmáli ríkisstjórnarinnar kveður á um skipan tekjustofnanefndar sem hafi það hlutverk að vinna tillögur um breikkun og styrkingu tekjustofna sveitarfélaga. Kristján L. Möller, fyrrverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skipaði í samræmi við það nefnd í fyrrasumar en í henni sátu auk fulltrúa ráðherra, fulltrúar allra þingflokka, fjármálaráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í formála skýrslunnar kemur fram að nefndin hafi leitast við að varpa ljósi á þróun og horfur í fjármálum sveitarfélaga, afkomu og áhrif fjármálakreppunnar. Fengnir voru nokkrir gestir á fundi nefndarinnar til umræðna um einstaka tekjustofna, virkni þeirra og eðli. Nefndin hélt 12 fundi og framkvæmdahópur sem hittist á milli funda undirbjó verkefni hvers fundar hittist 10 sinnum.

Bókun fulltrúa sveitarfélaga

Fulltrúar sveitarfélaganna í tekjustofnanefndinni lögðu fram bókun til að leggja sérstaka áherslu á að við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 verði tryggt áfram aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga en í fjárlagafrumvarpinu er ekki gert ráð fyrir slíku framlagi. Segja fulltrúarnir þetta framlag mikilvægt til að mæta tekjurýrnun og auknum útgjöldum sveitarfélaga ekki síst í félagslegri þjónustu.

Þá er í bókun fulltrúanna lögð áhersla á að endurgreiðsla ríkissjóðs vegna hækkunar tryggingagjalds verði áfram tryggð en með því að fella hana niður séu skattaálögur á sveitarfélögin auknar um tvo milljarða króna. Einnig er talið brýnt að tryggja áfram framlög til húsaleigubóta til að mæta sístækkandi leigumarkaði.


Skýrsla Tekjustofnanefndar.

Myndin með fréttinni er tekin af vef ráðuneytisins.