03. feb. 2015

Niðurstöður fjárhagsáætlana fyrir árið 2015

Niðurstöður fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir árið 2015 liggja nú fyrir. Þær hafa verið gefnar út í 1. tbl, 7. árg., Fréttabréfs hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga. Niðurstöður höfðu borist með rafrænum skilum frá 64 sveitarfélögum sem eru mun betri skil en á þessum tíma fyrir ári síðan. Alls liggja því fyrir niðurstöður frá sveitarfélögum þar sem búa 99,2% landsmanna. Niðurstöður liggja einnig fyrir fyrr en á síðasta ári. Sveitarfélögunum er skipað í fjóra flokka til að skýra betur þann mun sem er að finna meðal  þeirra. Niðurstöðurnar eru bornar saman við niðurstöður fjárhagsáætlana frá fyrra ári þar sem niðurstöður ársreikninga fyrir árið 2014 liggja ekki fyrir.

Helstu niðurstöður fyrir A-hluta eru sem hér segir:

  • Heildartekjur sveitarfélaganna eru ætlaðar 244,6 ma.kr. en samtals rekstrargjöld 224,5 ma.kr.
  • Almennt virðist afkoman vera ívið lakari en gert var ráð fyrir á árinu 2014. Þar virðist hærri launakostnaður vega þyngst.
  • Heildarframlegð er ætluð vera 8,3% af heildartekjum samanborið við 9,0% á fyrr ári.
  • Rekstrarniðurstaða sem hlutfall af heildartekjum eftir að tekið hefur verið tillit til reiknaða liða og fjármagnsliða lækkar heldur frá fyrra ári. Hún er 0,3% samanborið við 1,2% í niðurstöðum fjárhagsáætlana frá fyrra ári.
  • Veltufé frá rekstri sem hlutfall af heildartekjum er 7,7% á árinu 2015 samanborið við 8,8% á árinu 2014. Hæst er hlutfallið á höfuðborgarsvæðinu utan Reykjavíkur en lægst hjá Reykjavíkurborg.
  • Tekin ný langtímalán eru 15,6 ma.kr. en ætlað er að greiða afborgarnir langtímalána að fjárhæð 16,8 ma.kr.
  • Fjárfestingar eru ætlaðar 19,0 ma.kr. sem er heldur hærri fjárhæð en á síðasta ári.
  • Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélaga eru því sem næst óbreyttar frá fyrra ári.

Hjá samstæðu sveitarfélaganna (A+B-hluta) kemur í ljós að veltufjárhlutfallið lækkar um tvö prósentustig frá fyrra ári, fjárfestingar aukast um 5,4 ma.kr. og heildar skuldir og skuldbindingar lækka um 20 ma.kr.