07. okt. 2014

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2014

  • Fjarmala

Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Hilton Hótel Nordica í Reykjavík 9. og 10. október nk. Ráðstefnan verður sett kl. 10:00 á fimmtudagsmorgun af formanni sambandsins Halldóri Halldórssyni og í framhaldinu flytur Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra stutt ávarp. Síðan stýrir Sigmar Guðmundsson fréttamaður samtali formanns sambandsins og fjármála- og efnahagsráðherra um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga.

Fyrri dag ráðstefnunnar verða flutt margvísleg erindi um fjármál sveitarfélaga og stöðu þeirra. Þannig mun Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins fjalla um fjárhagslegt uppgjör vegna yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og Gunnlaugur Júlíusson sviðsstjóri hag-og upplýsingasviðs sambandsins ræðir um afkomu sveitarfélaganna á síðasta ári og horfur á næstu árum. Sólveig B. Guðmundsdóttir lögfræðingur á kjarasviði sambandsins mun ræða um niðurstöður kjaraasamninga 2014 og reynsluna af þeim og Bergur Elías Ágústsson, fyrrverandi bæjarstjóri Norðurþings fjallar um áhættugreiningu sveitarfélaga.  Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningadeildar Arion banka heldur stutt erindi um stöðu efnahagsmála, áskoranir, útlit og horfur og Örn Árnason leikari á lokaorðið á fyrri degi ráðstefnunnar en hann mun fjalla um fjármál sveitarfélaga í víðu samhengi.

Ráðstefnan hefst kl. 9:00 síðari daginn. Þá verður henni skipt í tvo hluta. Annars vegar verður fjallað um ýmsa þætti í fjármálum og rekstri sveitarfélaga og hins vegar um ýmsa þætti í rekstrarumhverfi sveitarfélaganna. Stefnt er að ráðstefnuslitum um kl. 12 á hádegi föstudaginn 10. október.

Dagskrá ráðstefnunnar