27. nóv. 2013

Tilkynning frá innanríkisráðuneytinu um fyrirhugaða hækkun hámarksútsvars

  • Trompetleikari_litil


Innanríkisráðuneytið hefur sent tilkynningu til allra sveitarfélaga þar sem athygli er vakin á því að í undirbúningi eru breytingar á lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Breytingarnar eru í samræmi við efni viðauka sem gerður hefur verið við samkomulag ríkis og sveitarfélaga frá 23. nóvember 2010 um tilfærslu þjónustu við fatlaða, en viðaukinn felur í sér að ákvörðun um endanlega útsvarsprósentu sveitarfélaga vegna yfirfærslu þjónustunnar er frestað um eitt ár, til ársins 2014.

Fyrirhugaðar breytingar eru eftirfarandi:

  1. Leyfilegt hámarksútsvar af tekjum manna á árinu 2014 mun hækka um 0,04%, úr 14,48% í 14,52%. Gert er ráð fyrir að álagningarhlutfall tekjuskatts lækki um samsvarandi hlutfall þannig að ekki verði um heildarhækkun tekjuskatts og útsvars að ræða.
  2. Hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í innheimtum útsvarstekjum sveitarfélaga á árinu 2014 vegna málefna fatlaðra mun hækka jafnhliða í 0,99% úr 0,95%. Framangreind hækkun hámarksútsvars rennur því óskipt til Jöfnunarsjóðsins. Sérstök athygli er vakin á því að ef af breytingunni verður og sveitarstjórn kýs að hækka ekki útsvarið um 0,04% munu útsvarstekjur þess samt sem áður skerðast sem nemur fyrrgreindri hækkun á hlutdeild Jöfnunarsjóðs í innheimtum útsvarstekjum.
  3. Ákvæði þess efnis að 0,25 prósentustig af þeirri hækkun, sem sveitarfélögum er tryggð vegna yfirfærslu á málefnum fatlaðra, renni beint til þjónustu við fatlaða innan viðkomandi þjónustusvæðis, er framlengt til ársins 2015. Framangreind 0,04% hækkun rennur á hinn bóginn óskipt til jöfnunarsjóðs eins og áður segir.
  4. Frestur sveitarstjórna til að ákveða útsvarshlutfall ársins 2014 er framlengdur til 30. desember 2013. Jafnframt er frestur til að tilkynna fjármála- og efnahagsráðuneytinu um þessa ákvörðun sveitarstjórnar framlengdur til sama tíma.

Í tilkynningunni hvetur ráðuneytið sveitarfélög til að fylgjast með framgangi málsins á Alþingi og verða nánari upplýsingar veittar hjá innanríkisráðuneytinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. 

Samband íslenskra sveitarfélaga tekur fyrir sitt leyti undir tilkynningu ráðuneytisins. Sambandið er meðvitað um að tilkynningin kemur óþægilega seint enda hafa margar sveitarstjórnir þegar tekið ákvörðun um útsvarshlutfall á næsta ári en tilkynningin gefur sveitarstjórnum tilefni til að endurskoða þá ákvörðun.  Drög að samkomulagi um málið lágu fyrir í september sl. en því miður varð dráttur á því að ganga frá endanlegu samkomulagi. Þar sem frumvarp hefur ekki enn verið lagt fram á Alþingi er ekki hægt að fullyrða hvenær það gæti orðið að lögum en stefnt er að því að lagabreytingin taki gildi fyrir næstu áramót.

Sambandið vill benda sveitarfélögum á að ef sveitarstjórn vill komast hjá því að boða til aukafundar í desember til að ákveða endanlegt útsvarshlutfall er mögulegt að samþykkja hækkun útsvarshlutfalls í 14,52% með fyrirvara um að frumvarp um hækkun hámarksútsvars verði að lögum. Þær sveitarstjórnir sem ekki ætla að leggja á hámarksútsvar geta vitaskuld ákveðið útsvarshlutfallið strax, án fyrirvara um samþykkt frumvarpsins.

 Nánari upplýsingar um málið veita Karl Björnsson framkvæmdastjóri og sviðsstjórarnir Guðjón Bragason og Gunnlaugur Júlíusson