23. sep. 2013

Dagskrá fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2013

  • SIS_Lydraedi_mannrettindi_190x100

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica hóteli dagana 3. og 4. október nk. Dagskrá ráðstefnunnar verður að mestu leyti með hefðbundnu sniði en þó verður efnt til þeirrar nýjungar að formaður sambandsins, Halldór Halldórsson, og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra munu skiptast á skoðunum um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga undir stjórn Þóru Arnórsdóttur fréttamanns.

Ráðstefnan hefst með setningu formanns sambandsins kl. 10:00, fimmtudaginn 3. október. Meðal umræðuefna fyrri daginn má nefna erindi Ásgeirs Jónssonar, hagfræðings hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, um efnahagshorfur að hausti og erindi Margrétar Hauksdóttur, forstjóra Þjóðskrár, sem hún nefnir Lykill að rafrænni stjórnsýslu - tæki og tól / tækifæri og hindranir.

Seinni daginn verður ráðstefnunni skipt upp í tvær málstofur þar sem fjölmargir fyrirlesarar koma við sögu. Í annarri málstofunni verður megináherslan lögð á umræðu tengda fjármálum, fjárhagsáætlunum og afkomu sveitarfélaganna en í hinni málstofunni verður megináherslan lögð á umræðu sem ýmsum mikilvægustu málaflokkum sveitarfélaganna s.s. fræðslu- velferðar- og félagsmálum. Einnig verður fjallað um stöðu mála varðandi yfirfærslu verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Áformað er að fjármálaráðstefnu sveitarfélaga ljúki kl 12:00, föstudaginn 4. október.