02. júl. 2013

Drög að frumvarpi til laga um opinber fjármál

 • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Fjármála- og efnahagsráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í síðustu viku drög að frumvarpi til laga um opinber fjármál. Drögin eru nú aðgengileg á vef ráðuneytisins. Umsagnarfrestur um frumvarpið er til 20. ágúst nk.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um heildstæða umgjörð um opinber fjármál. Tiltekin ákvæði þess taka til hins opinbera í heild, þ.á m. sveitarfélaga. Í þessari samantekt verður einkum horft til áhrifa frumvarpsins á sveitarfélögin en að öðru leyti er vísað til kynningar á vef fjármálaráðuneytisins.

Í 4. gr. frumvarpsins kemur fram að stefnumörkun í opinberum fjármálum felst í fjármálastefnu ríkisstjórnar, sbr. 6. gr., fjármálaáætlun, sbr. 8. gr., og samkomulagi ríkis og sveitarfélaga, sbr. 10. gr. frumvarpsins:

Stefnumörkunin skal grundvölluð á eftirtöldum gildum, sbr. 4. gr.:

 1. Sjálfbærni, sem felst í því að opinberar skuldbindingar séu viðráðanlegar til skemmri og lengri tíma og leggi ekki ósanngjarnar byrðar á komandi kynslóðir.

 2. Stöðugleika, sem byggir á því að stjórn opinberra fjármála stuðli að jafnvægi í efnahagsmálum.

 3. Varfærni, sem byggir á því að hæfilegt jafnvægi sé á milli tekna og gjalda.

 4. Festu, sem felst í því að forðast ber óvæntar og óæskilegar breytingar eða frávik frá tekju- og útgjaldaáætlunum.

 5. Gagnsæi, sem felst í að við stefnumörkun í opinberum fjármálum eru sett mælanleg, skýr og auðsæ markmið sem séu birt opinberlega, ásamt gögnum sem auðvelda mat á stöðu opinberra fjármála.

Samkvæmt 8. gr. frumvarpsins skal setja markmið um afkomu og efnahag A-hluta ríkissjóðs og sveitarfélaga sundurliðuð eftir árum til eigi skemmri tíma en næstu fimm ára, sbr. 6. gr., í fjárhæðum miðað við áætlaða verga landsframleiðslu. Þar skal ennfremur fjallað um fjármál aðila í B- og C-hluta ríkissjóðs og B-hluta sveitarfélaga að því marki sem þau hafa áhrif á markmið skv. 1. málsl.

Um afkomu sveitarfélaga skal setja nánari markmið, sbr. c.-lið 2. tl. 2. mgr. 8. gr., þar sem tilgreina skal:

 1. áætluð gjöld og tekjur sveitarfélaga eftir hagrænu eðli, ásamt áætlun um helstu breytingar á peningalegum eignum og skuldum;
 2. áætlun um tilfærslur á fjármunum milli ríkissjóðs og sveitarfélaga, sundurliðaðar eftir tilefnum til næstu fimm ára;
 3. áætlun um þróun efnahags og þar með skulda og langtímaskuldbindinga sveitarfélaga.

Ályktun Alþingis um fjármálaáætlun skal liggja til grundvallar við gerð frumvarps til fjárlaga og fjárhagsáætlana sveitarfélaga fyrir komandi fjárlagaár, sbr. 8. mgr. 8. gr. frumvarpsins.

Í 10. gr. frumvarpsins er kveðið á um samstarf við samtök sveitarfélaga:

Ráðherra fjármála skal tryggja formlegt og reglubundið samstarf við sveitarfélög við mótun fjármálastefnu og fjármálaáætlunar.

Ráðherra fjármála skal við mótun fjármálaáætlunar leita samkomulags, fyrir hönd ríkisstjórnar, við Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir hönd sveitarfélaga, áður en áætlunin er lögð fyrir Alþingi, þar sem m.a. er fjallað um eftirfarandi þætti:

 1. markmið um afkomu og efnahag sveitarfélaga til næstu fimm ára, sundurliðað eftir árum, sbr. 8. gr.,
 2. ráðstafanir til að tryggja að markmið um afkomu sveitarfélaga gangi eftir, sbr. 8. gr.
 3. fjármögnun opinberrar þjónustu og tekjur sveitarfélaga, og
 4. breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Samkomulag ríkis og sveitarfélaga skv. 2. mgr. 10. gr. skal gert með fyrirvara um afgreiðslu Alþingis á fjármálaáætlun. Komist aðilar ekki að samkomulagi áður en til framlagningar þingsályktunartillögu um fjármálaáætlun kemur skal það tekið fram í fjármálaáætlun.

Á ríki og sveitarfélögum hvílir gagnkvæm skylda til að leggja fram greinargóðar upplýsingar um afkomu, skuldbindingar og eignir á næstliðnum tveimur árum og áætlaða þróun þeirra til næstu fimm ára. Samband íslenskra sveitarfélaga skal hafa umsjón með upplýsingaöflun um fjárhagsleg málefni sveitarfélaga og stofnana og félaga í þeirra eigu.

Fjalla skal um samstarf samkvæmt 10. gr. í samstarfsráði ríkis og sveitarfélaga og í samstarfsnefnd sömu aðila, sbr. 128. gr. sveitarstjórnarlaga.

Í skýringum við frumvarpið kemur fram svohljóðandi samantekt um áhrif þess á sveitarfélög:

„Af frumvarpinu leiðir að umgjörð stefnumótunar í opinberum fjármálum breytist verulega. Gert er ráð fyrir því að Samband íslenskra sveitarfélaga dragi saman upplýsingar um fjárhagsmarkmið sveitarfélaga ár hvert og komi þeim á framfæri við fulltrúa fjármála- og efnahagsráðuneytis. Sveitarfélög leggja nú þegar fram fjögurra ára rekstraráætlanir í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga og því er ekkert því til fyrirstöðu að sambandið geti í ársbyrjun sundurgreint markmið sveitarfélaga sem greint skal frá í fjármálaáætlun að vori. Þá getur sambandið nú þegar fylgst ítarlega með þróun fjárhags flestra sveitarfélaga byggt á þriggja mánaða fjárhagsuppgjöri sveitarfélaga. Stefnt er að því að sambandið hafi slíka yfirsýn yfir fjárhag allra sveitarfélaga innan skamms tíma. Þá mun sambandið bera ábyrgð á að draga saman fjárhagsleg markmið B-hluta sveitarfélaga og koma þeim á framfæri við fjármála- og efnahagsráðuneyti við mótun fjármálaáætlunar.“

Sambandið mun senda umsögn um frumvarpið fyrir 20. ágúst nk. en tekið skal fram að Karl Björnsson framkvæmdastjóri sambandsins átti sæti í stýrinefnd sem vann að gerð frumvarpsins.

http://www.fjarmalaraduneyti.is/frettir/nr/16989