14. des. 2011

Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar samþykkt

  • reykjavik

Borgarstjórn Reykjavíkur hefur afgreitt fjárhagsáætlun fyrir borgarsjóð og B-hluta stofnanir borgarinnar til næstu fimm ára. Áætlunin er afar mikilvægt tæki fyrir stefnumótun Reykjavíkurborgar til næstu framtíðar. Áætlunin sýnir glögglega innan hvaða fjárhagslega ramma rekstur borgarinnar getur athafnað sig.

Einnig eru settar fram fjórar sviðsmyndir þar sem mismunandi aðstæðum er lýst sem gætu haft teljandi áhrif á afkomu borgarinnar. Nefnast sviðsmyndirnar alþjóðaborgin, græna borgin, stöðnunarborgin og kreppuborgin. Þessar sviðsmyndir gefa tækifæri til ítarlegri viðbragðsáætlana en áður hafa verið mögulegar í áætlanagerð Reykjavíkurborgar. Er þar bæði gert ráð fyrir mun betri afkomu en reiknað er með í frumvarpinu og eins að allt geti farið á versta veg varðandi afkomuna.

Í tengslum við fimm ára áætlun 2012-2016 hefur verið unnin Atvinnustefna Reykjavíkur í fimm hlutum en þar er haft að leiðarljósi að Reykjavík styrki hlutverk sitt sem höfuðborg Íslands og verði forystuafl í vaxandi alþjóðlegri samkeppni um fyrirtæki, fjárfestingu, vinnuafl og ferðamenn. 

Frumvarpið er sett fram á föstu verðlagi eins og reglur gera ráð fyrir en nýjung felst í því að einnig er reiknað út frá breytilegu verðlagi fyrir A-hluta. Helstu forsendur frumvarpsins byggja á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands frá 8. júlí 2011. Með frumvarpinu fylgir grein eftir Ásgeir Jónsson hagfræðing um Íslenskar efnahagshorfur. Áætlunina er að finna á heimasíðu Reykjavíkurborgar.