13. okt. 2011

Fjármálaráðstefna 2011 sett

  • SIS_Fjarmal_sveitarfel_760x640

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2011 var sett á Hilton Reykjavík Nordica í dag. Í opnunarávarpi sínu varð Halldóri Halldórssyni, formanni sambandsins, tíðrætt um samskipti ríkis og sveitarfélaga. Halldór sagði m.a.:

Við vitum svo sem hvar valdið liggur, það er hjá ríkisstjórn og Alþingi, við höfum fundið fyrir því í ákveðnum málum en okkur líkar betur þegar hægt er að semja um málin og ná sameiginlegri niðurstöðu. Sem betur fer er samningaleiðin mun oftar ofan á en að ákveðnir ráðherrar eða ríkisstjórn taki ákvarðanir þvert á stefnu og samþykktir Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ekki ætti að þurfa að ítreka það en sú stefna og þær samþykktir eru mótaðar og samþykktar af fulltrúum allra sveitarfélaga á landinu á landsþingum sambandsins. Þess vegna er mikill lýðræðishalli á slíkum ákvörðunum ríkisvaldsins að mínu mati en þar liggur hins vegar valdið. Slíkar ákvarðanir kalla líka á átök milli þessar tveggja stjórnsýslustiga sem er nokkuð sem við viljum draga úr og ég tel að það hafi nokkuð áunnist í því á undanförnum árum. Það er hollt að minnast þess að við bætum ekki samfélag okkar með átökum heldur með lausnum sem draga úr átökum.

Halldór gagnrýndi þau orð fjármálaráðherra að ríkið eitt hafi þurft að taka á sig þungar byrðar vegna efnahagshrunsins og benti á að það hefðu sveitarfélögin einnig gert:

Af þessum sökum finnst mér ekki boðlegt að bera svona málflutning á borð fyrir okkur eins og fjármálaráðherra gerir. Það er ekki hægt að standa fyrir framan kjörna fulltrúa á sveitarstjórnarstiginu og halda því fram að þeir séu einungis þiggjendur góðra hluta sem til koma vegna erfiðra ákvarðana í ríkisstjórn. Þannig er það ekki því ekki einungis höfum við á sveitarstjórnarstiginu þurft að taka gríðarlega erfiðar ákvarðanir heldur höfum við líka þurft að takast á við ríkisvaldið um ákveðin mál þó eins og fyrr segir séu samskiptin að mestu leyti í góðum farvegi. Svo er það bara þannig að kjörnir fulltrúar eru kosnir til að taka erfiðar ákvarðanir.

Í ræðu sinni benti formaður sambandsins á að sveitarfélögin hafi ekki enn náð almennilega vopnum sínum.

Við erum að sjá hærri skuldir 2010 en 2009 vegna þess að sveitarfélögin hafa ekki náð almennilega vopnum sínum til að greiða niður skuldir en fyrst og fremst vegna þess að skuldbindingar sem áður voru utan efnahags eru nú komnar inn í efnahagsreikninga sveitarfélaga. Þarna höfum við tekið á mikilvægu máli sem t.d. ríkissjóður gæti lært af okkur en þar eru svona skuldbindingar ekki sýnilegar.

Við erum eflaust sammála um að við erum að glíma við erfiðleika og verkefnin hafa tekið á hjá ríki og sveitarfélögum eins og öllum öðrum.

Hins vegar þurfum við ekki að vera í svona miklum erfiðleikum því víða eru ónýtt tækifæri og ónýttir kraftar. Ég ætla að nefna eitt dæmi.

Þá ræddi Halldór um úthlutun úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og gagnrýndi hversu lítið hafi verið komið til móts við kröfur sambandsins um úthlutun í sjóðnum.

Sambandið hefur óskað eftir að við umfjöllun fjárlaganefndar um fjáraukalög fyrir yfirstandandi ár tryggi nefndin a.m.k. 200 m.kr. aukafjárveitingu til hækkunar aukaframlags Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga úr 700 m.kr. í 900 m.kr. á þessu ári. Gegn mótmælum sambandsins hafa innanríkisráðherra og fjármálaráðherra ákveðið að verja 300 m.kr. af  700 m.kr. aukaframlagi ársins til Sveitarfélagsins Álftaness. Eftir munu þá standa 400 m.kr. til að mæta fjárhagserfiðleikum annarra sveitarfélaga sem mörg hver mega alls ekki við því að framlagið lækki enn frekar en felst í lækkun heildarframlagsins úr 1.000. m.kr. árið 2010 í 700 m.kr. árið 2011. Tekið skal fram að sambandið telur fulla þörf á 300 m.kr. framlagi til Sveitarfélagsins Álftaness en telur að rétt sé að mæta því af hálfu sveitarfélaganna á lengri tíma og þannig að ekki einungis þau sveitarfélög sem í raun eru háð aukaframlaginu taki það á sig að greiða þetta framlag til Álftaness.

Í umfjöllun sinni um kjarasamninga sagði Halldór að samstarf við stéttarfélög hefði verið gott.

Stéttarfélögin hafa flest sýnt sveitarfélögunum samstöðu í erfiðu árferði, haldið friðinn og þannig veitt dýrmætt svigrúm til að takast á við afleiðingar efnahagshrunsins. Fyrir það þakka ég nú.

Samninganefnd sveitarfélaga hefur nú lokið gerð 42 af 43 kjarasamningum við 68 viðsemjendur. Kjarasamningarnir renna út árið 2014 eins og aðrir kjarasamningar á vinnumarkaði og er þessi langi gildistími mikilvægur fyrir allt okkar hagkerfi og kemur væntanlega öllum til góða.


Að lokum ræddi Halldór um flutning á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga og taldi að vel hefði tekist til.

Það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að vel hafi tekist til það sem af er fyrsta ári yfirfærsluferlisins og ber þar sérstaklega að þakka að allir hlutaðeigandi aðilar hafa tekið viðfangsefnið jákvæðum og uppbyggilegum tökum og leitað lausna á þeim ótalmörgu úrlausnarmálum sem upp hafa komið.

Álagið á félagsþjónustu sveitarfélaganna hefur aukist.  Árið 2010 nema útgjöld til félagsþjónustu sveitarfélaga 12% af skatttekjum. Til viðmiðunar var það hlutfall 10% árið 2008 og 11% árið 2009. Þannig hækka útgjöld til félagsþjónustu í hlutfalli af skatttekjum um heilt prósentustig milli ára á tímabilinu 2008-2010. Fjárhagsaðstoðin hefur hækkað um 62% frá árinu 2006. Skv. óformlegri könnun kemur í ljós að 42% þeirra sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Ræða Halldórs verður sett inná vefinn eftir nokkrar mínútur.