23. jún. 2011

Fasteignamat 2012

  • SIS_Skipulags_Byggdamal_760x640

Þjóðskrá Íslands birti í dag fasteignamat fyrir árið 2012. Fasteignamatið miðast við verðlag fasteigna í febrúar 2011. Matið er eingöngu birt á vefnum og geta fasteignaeigendur nálgast matið með rafrænum skilríkjum eða veflykli ríkisskattstjóra á upplýsinga- og þjónustuveitunni www.island.is sem Þjóðskrá Íslands rekur.

Fasteignaeigendur geta einnig nálgast matið á skra.is með því að slá inn götuheiti eða hafa samband við Þjóðskrá Íslands og óskað eftir því að fá tilkynningaseðilinn sendan með bréfpósti.

Tilkynningaseðill fasteignamats verður ekki sendur í tölvupósti til einstaklinga þar sem um er að ræða persónulegar upplýsingar. Einstaklingar geta með símtali eða tölvupósti óskað eftir því að fá tilkynningaseðilinn sendan með bréfpósti. Lögaðilar, þ.e. fyrirtæki og stofnanir, geta hins vegar fengið tilkynningaseðil sendan í tölvupósti.

Lög kveða á um að fasteignamat á hverjum tíma skuli endurspegla markaðsverðmæti (staðgreiðsluverð) fasteignar. Fasteignamat fyrir árið 2010 var hið fyrsta sem unnið var í samræmi við nýju lögin og er þetta því í þriðja sinn sem fasteignir eru metnar á þennan hátt. Mat íbúðarhúsnæðis 2012 byggist á yfir 34.000 kaupsamningum frá júlí 2005 til apríl 2011.

Frestur til að gera athugasemdir við nýja fasteignamatið er til 5. ágúst 2011.