24. sep. 2015

Mörg evrópsk sveitarfélög í vandræðum vegna flóttamanna

Mörg sveitarfélög í Evrópu eiga í erfiðleikum vegna straums flóttafólks, ekki síst vegna þess að erfiðlega gengur að útvega þeim þak yfir höfuðið. Þannig búa tugir þúsunda flóttamanna í Svíþjóð í bráðabirgðahúsnæði sem telst ófullnægjandi. Þetta kom fram í erindi Guðrúnar Daggar Guðmundsdóttur, forstöðumanns skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel, á fjármálaráðstefnu sambandsins.

Evrópusamtök sveitarfélaga, CEMR, hafa hafist handa við að safna upplýsingum um stöðuna og leita eftir stuðningi Evrópusambandsins við sveitarfélög vegna móttöku flóttafólks.

„Við þurfum að fylgjast vel með því sem skeður í Evrópu á þessu sviði því við eigum aðild að Schengen-samkomulaginu og evrópskar ákvarðanir hafa því áhrif á Íslandi,“ sagði Guðrún Dögg.

„Breyting á svokallaðri Dyflinnarreglugerð kynni þannig að leiða til þess að Ísland geti ekki lengur vísað hælisleitendum frá Íslandi til þess Evrópuríkis sem þeir komu fyrst til, eins og tíðkast hefur hingað til.“

  • Hlutverk Brussel-skrifstofu Sambands íslenskra sveitarfélaga er að fylgjast með því sem er á döfinni hjá ESB og gæti varðað rekstur sveitarfélaga á Íslandi. Talið er að þrír fjórðu hlutar allrar löggjafar ESB snerti starfsemi sveitarfélaga á einn eða annan hátt.