28. sep. 2015

Miklar sveiflur á fáum árum

 „Búsetubreytingar og breytt aldursskipting íbúanna hafa áhrif á afkomu sveitarfélaga. Sveitarstjórnir ættu að gefa þessari þróun gaum,“ sagði Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Hann brá upp myndum sem sýna mikla sögu um búsetuþróunina frá 1998.

Gunnlaugur dró saman kjarna máls síns í eftirfarandi punktum:

  • Fólki hefur fjölgað í öllum landshlutum nema tveimur (á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra) frá 1998 til 2015.
  • Íbúum á Suðvesturhorninu fjölgaði um nær 50% á tímabilinu.
  • Verulegar breytingar hafa átt sér stað innan einstakra landshluta.
  • Stærri þéttbýlisstaðir hafa eflst en fólki fækkað í þeim sveitarfélögum sem fjær þeim liggja.
  • Tilflutningur er innan sveitarfélaga með marga þéttbýlisstaði.
  • Miklar breytingar hafa víða átt sér stað í aldurssamsetningu íbúanna.

Fólki hefur fækkað í meira en helmingi sveitarfélaga landsins frá 1998, í nokkrum þeirra yfir 20% og í einu yfir 30%. Slíkar sveiflar teljast mjög miklar á til dæmis norræna vísu búsetuþróunar.

Íslensk þjóð eldist hlutfallslega og það skiptir sveitarfélögin verulegu máli. Þannig er því spáð að 67 ára og eldri verði helmingi fleiri 2030 en þeir eru nú.

„Sveitarstjórnir geta ekki haft áhrif á þessa þróun en en sveiflurnar eru á köflum miklar, sem hefur auðvitað áhrif til lengri tíma litið. Við sjáum jafnvel miklar breytingar á fáum árum í sveitarfélögum sem teljast stór á okkar mælikvarða,“ sagði Gunnlaugur Júlíusson.