24. sep. 2015

Launakostnaðurinn þungur í skauti

Nýjustu kjarasamningar eru sveitarfélögum dýrir og eru samt ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum. Þá hækkuðu laun afturvirkt um 4% frá 1. maí 2014 vegna endurskoðunar starfsmats og launakostnaðurinn 2014 er því í raun umfram það sem fram kemur í ársreikningum þess árs. Þetta kom fram í máli Gunnlaugs Júlíussonar, sviðsstjóra  hag- og upplýsingasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga, á fjármálaráðstefnunni.

Viðsnúningur varð í rekstri sveitarfélaganna 2014 og afkoma þeirra versnaði almennt. Þau hafa því að óbreyttu ekki svigrúm til að greiða niður skuldir sínar í jafnríkum mæli og undanförnum árum. Veltufé frá rekstri hefur dregist saman, þ.e. sá hluti tekna sem eftir er þegar laun og daglegur rekstrarkostnaður hefur verið greiddur. Veltufé frá rekstri er notað til að borga af lánum og til fjárfestinga.

Það dró úr atvinnuleysi 2014 og fjárfestingar jukust en skuldir jukust.

Gunnlaugur hvatti til þess að allra leiða yrði leitað til að nýta þá möguleika sem í kjarasamningunum fælust en benti jafnframt á að niðurstaða gerðardóms myndi hafa áhrif á rekstur sveitarfélaga. Þá væru samningar við skólastjórafélagið ófrágengnir.

Hann kvað það mikilvægt að sveitarfélögin tækju ekki við „undirfjármögnuðum verkefnum“ og benti á að að ekki hefði tekist að leysa ágreining við ríkisvaldið um uppgjör vegna yfirfærslu málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

Sveitarfélögin yrðu svo að „skilgreina af festu hvað tilheyrði þeirra borði og hvað ekki“.

Gunnlaugur fór yfir rekstrarafkomu A-hluta sveitarfélaganna í meðfylgjandi glæru, með samanburði lykiltalna úr ársreikningum áranna 2013 og 2014 á verðlagi hvers árs.

Hér kemur skýrt fram að tekjur jukust um liðlega 5% frá ári til árs en útgjöld um nær 12%. Versnandi afkoma og viðsnúningur til hins verra sést því svart á hvítu.