25. sep. 2015

Húsnæðismálin efst í huga velferðarráðherra

„Framundan eru viðamiklar úrbætur í málaflokki sem stendur illa og varðar marga. Auðvitað er stór hluti landsmanna ágætlega settur í öruggu húsnæði en þeir eru hins vegar alltof margir sem búa við háa leigu á ótryggum leigumarkaði eða glíma við fasteignakaup, sem eru þeim fjárhagslega erfið eða  ofviða,“ sagði Eygló Harðardóttir við fundarmenn á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst á fimmtudag. Hún lagði nær allan ræðutíma sinn undir húsnæðismálin, enda væru þau „meðal allra stærstu verkefna sem ríki og sveitarfélög standa frammi fyrir nú um stundir.“

Ráðherra rakti síðan helstu þætti í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar, samkvæmt yfirlýsingu hennar frá í maí 2015 í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. 

  1. Lagður verður grunnur að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi með áherslu á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum til að tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.
  2. Stefnt er að því að byggja 2.300 slíkar íbúðir næstu fjögur árin með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga og með beinum vaxtaniðurgreiðslum ríkisins, sem nema um 30% af stofnkostnaði.
  3. Áformað er að draga úr skattlagningu á leigutekjur af íbúðum einstaklinga til að stuðla að auknu framboði leiguíbúða.
  4. Veruleg hækkun húsnæðisbóta er áformuð á árunum 2016-2017.
  5. Gert er ráð fyrir að verja ríflega 2,6 milljörðum króna til uppbyggingar félagsleg húsnæðis og til nýs húsnæðisbótakerfis, þar af 1,1 milljarði króna til að auka húsnæðisstuðning við leigjendur.
  6. Áformað er að auka stuðning við kaup á fyrstu íbúð með því að hvetja til húsnæðissparnaðar, til dæmis þannig að ungu fólki verði heimilað að nota skattfrjálsan séreignarsparnað sem eiginfjárframlag við kaup á fyrstu íbúð.

Velverðarráðherra sagði að ríki og sveitarfélög yrðu að taka höndum saman um lausnir og leiðir til að lækka byggingarkostnað og auka framboð á ódýru húsnæði. Ríkið geti lagt sitt af mörkum með því að breyta byggingarreglugerð og skipulagslögum. Í yfirlýsingu ríkisstjórnar frá í maí væri rík áhersla lögð á þann þátt húsnæðismála. Þar væri meðal annars kveðið á um að í byggingareglugerð yrði tekinn inn nýr flokkur mannvirkja, undanþeginn ákvæðum um altæka hönnun.

„Það er engin spurning í mínum huga að með útsjónarsemi og svolítið breyttu hugarfari er mögulegt að auka fjölbreytni á húsnæðismarkaði með auknu framboði íbúða sem henta fyrstu kaupendum og efnaminni einstaklingum eða öðrum þeim sem eru að koma undir sig fótunum.“