22. sep. 2016

Hagur sveitarfélaga vænkast

Tiltæk uppgjör sveitarfélaga, vegna fyrri hluta ársins 2016, benda til þess að hagur sveitarfélaga sé að vænkast. Skuldir hafa minnkað að tiltölu við tekjur. Þetta kom fram í ávarpi Halldórs Halldórssonar, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, við upphaf fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í dag.

Hann nefndi að árið 2015 hefðu laun og launatengd gjöld sveitarfélaga, ásamt hækkun lífeyrisskuldbindinga, numið yfir 60% af tekjum, sem er óvenju hátt hlutfall. Þrátt fyrir þetta tókst sveitarfélögunum sem sagt að draga hlutfallslega úr skuldum sínum.20160922_102452

Samstaða um kjaramál og tekjur af ferðamönnum

Halldór hvatti forystumenn sveitarfélaga sérstaklega til samstöðu í tveimur málum sem eru ofarlega á baugi; í kjaramálum annars vegar og í baráttu fyrir hlutdeild í tekjum af ferðamönnum hins vegar. 

  • Samband íslenskra sveitarfélaga hefði undirritað kjarasamninga til marsloka 2019 við 61 af 63 viðsemjendum sínum. Ósamið er enn við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og við grunnskólakennara. Halldór kvaðst vonast til að hnúturinn myndi rakna von bráðar varðandi tónlistarskólana. Mikil óvissa ríkti hins vegar varðandi grunnskólakennara, sem hefðu fellt undirritaðan kjarasamning í tvígang í atkvæðagreiðslum: „ Ég brýni sveitarstjórnir til að sýna samstöðu í málinu. Mikið liggur við að vera samstíga við lausn svo erfiðs verkefnis sem viðræðurnar við forystu grunnskólakennara eru.“  
  • Sveitarfélögin fá nú einungis tekjur af útsvari þeirra sem vinna við ferðaþjónustu auk fasteignaskatta af mannvirkjum sem tilheyra ferðaþjónustunni. Hins vegar rennur gistináttaskattur til ríkisins en víða erlendis er þessu öfugt farið. Þar rennur gistináttaskattur til sveitarfélaga. Um þetta sagði formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga: „Það er erfitt að sannfæra ríkisvaldið um að beina tekjum af ferðaþjónustu til sveitarfélaga ef sveitarfélögin eru ekki samstíga í því hvernig þeim skuli dreift á milli þeirra. Það er orðið mjög aðkallandi að fá skýra og framkvæmanlega niðurstöðu í umræðuna um gjaldtöku af ferðamönnum.“ 

Starfshópur á vegum sambandsins hefur skilað tillögum að markmiði fyrir sveitarfélögin til að auka hlut þeirra í tekjum af ferðamönnum. Skýrsla hópsins verður kynnt sérstaklega á fjármálaráðstefnunni í dag. Halldór kvaðst vonast til að skýrslan gæti orðið „gagnlegt innlegg í þessa umræðu og að sveitarstjórnarmenn geti orðið sammála um hvaða leið sé best að fara í þessu mikilvæga máli.“