22. sep. 2016

Framtíðarskipan húsnæðismála að skapi sveitarfélaga

Niðurstaða ríkisvalds og Alþingis um framtíðarskipan húsnæðismála er í góðu samræmi við stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga og sveitarfélögin hljóta því að styðja þessar aðgerðir, sagði Halldór Halldórsson, formaður sambandsins, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. Sveitarfélögin hafi enda lengi beðið eftir slíkri niðurstöðu og nú liggi hún fyrir að mestu.

Fern lög hafa verið samþykkt á Alþingi á þessu ári og þrjú frumvörp til viðbótar eru til umfjöllunar á Alþingi. Halldór skilgreindi hornsteina í þessu breytta kerfi:

  1. Sett hafa verið lög um almennar íbúðir, þar sem kveðið er á um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum fyrir tekjulága hópa.
  2. Ríkið mun annast greiðslu húsnæðisbóta, sem taka við af almennum húsaleigubótum, um nk. áramót. Á móti munu öll sveitarfélög þurfa að veita sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra sem eru í mestum vanda.
  3. Sett verði lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, þar sem heimilað er að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði til þess að hraða eiginfjármyndun í húsnæði.

„Þessar aðgerðir eru í góðu samræmi við stefnumörkun sambandsins og sveitarfélögin hljóta því að styðja þessar aðgerðir, þótt þær hafi vissulega töluverð áhrif á útgjöld og tekjur sveitarfélaga sem við eigum í viðræðum við fjármálaráðuneyti um að koma til móts við sveitarfélögin vegna tekjutapsins sem bráðabirgðamat segir að geti verið allt að 15 milljarðar króna á 10 árum,“ sagði formaðurinn.
„En þessari lagasetningu þurfa líka að fylgja aðgerðir, bæði af hálfu ríkis og sveitarfélaga! Sveitarfélögin þurfa m.a. að leggja mikla áherslu á að hefja sem fyrst vinnu við gerð húsnæðisáætlana, sem eru forsenda þess að ríkið veiti stofnframlög til almennra íbúða í viðkomandi sveitarfélagi.“