27. sep. 2017

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2017

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2017 verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica dagana 5. og 6. október nk. Fjármálaráðstefnan er fjölmennasta ráðstefna sveitarfélaganna ár hvert en hana sækja að jafnaði um 400 manns, bæði kjörnir fulltrúar og starfsfólk sveitarfélaga.

Á ráðstefnunni verður að venju fjallað um fjármál sveitarfélaga frá ýmsum sjónarhornum, en  einnig um fjölmörg efni sem tengjast fjármálum og rekstri sveitarfélaganna s.s. félagsþjónusta, húsnæðismál, atvinnumál.

Fimmtudagur: áhersla á stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins

Dagskrá fyrri hluta fimmtudags er hefðbundin og hefst með ávarpi formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjármálaráðherra. Þá verður farið yfir stöðu og horfur í efnahagsmálum og fjármálum sveitarfélaga og kynnt myndræn framsetning á fjármálum sveitarfélaga sem nálgast má á vef sambandsins. Eftir hádegi ávarpar  samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ráðstefnuna.  Að ávarpi loknu verða tvær skýrslur er varða stöðu og framtíð sveitarstjórnarstigsins kynntar og teknar til umræðu. Sú fyrri er um framtíðarskipan sveitarstjórnarmála, þar sem m.a. er mælt fyrir um umtalsverða fækkun sveitarfélaga og að lágmarksstærð þeirra verði lögbundin. Sú síðari fjallar um tillögur að breytingum  á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Föstudagur: fjórar málstofur og fjölbreytt erindi

Föstudaginn 6. október verður dagskráin í fjórum málstofum, en ekki tveimur eins og undanfarin ár. Í hverri málstofu verður fjallað um ákveðið þema og þátttakendum gert að skrá sig í einhverja  málstofuna. Engu að síður á að vera hægt að fara milli málstofa eftir áhuga hvers og eins. Eftirfarandi málstofur verða á föstudeginum:

  • A-hluti Fjármál sveitarfélaga
  • B-hluti Fræðslumál og félagsþjónusta
  • C-hluti Fasteignir og húsnæðismál
  • D-hluti Byggð og atvinna

Dagskrána í heild og eyðublað til skráningar má sjá hér á vef sambandsins.