15. sep. 2016

Fjármálaráðstefna sveitarfélaga 2016

Árleg fjármálaráðstefna sveitarfélaga verður haldin fimmtudaginn 22. september og föstudaginn 23. september á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu við Suðurlandsbraut í Reykjavík.

Ráðstefnan hefst fyrri daginn kl. 10:00 með ávarpi formanns sambandsins, Halldórs Halldórssonar, en síðan mun Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra  ávarpa ráðstefnuna. Í beinu framhaldi fara fram samræður formanns sambandsins og fjármála- og efnahagsráðherra um fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga, ásamt ýmsu fleira sem fellur undir verkefni ráðherra og varðar sveitarfélögin, undir stjórn Sigrúnar Stefánsdóttur, forseta hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri.

Þá verða flutt erindi um fjármál sveitarfélaga og fleira, en í lok fyrri ráðstefnudags verður boðið upp á léttar veitingar.

Síðari ráðstefnudeginum verður að venju skipt upp í tvo hluta, þar sem fjallað verður um margvísleg málefni sem snúa að fjármálum og rekstri sveitarfélaga. Ráðstefnunni mun ljúka kl. 12 á hádegi 23. september.

Dagskrá ráðstefunnar er á vef sambandsins.

Skráning á ráðstefnuna fer fram með rafrænum hætti á vef sambandsins. Skráningu lýkur mánudaginn 19. september og eru sveitarstjórnarmenn og aðrir þeir sem ætla að sitja ráðstefnuna vinsamlega beðnir um að virða þau tímamörk og skrá sig tímanlega – það auðveldar allan undirbúning ráðstefnunnar.

Þátttökugjald er 17.000 kr. og eru innifaldar í því allar veitingar og fundargögn.