04. okt. 2017

Bætt vinnubrögð í kjaraviðræðum áfram mikilvæg

Alls hafa 55 af 63 viðsemjendum Sambands íslenskra sveitarfélaga samið um upptöku á endurbættu starfsmatskerfi sveitarfélaga. Starfsmatið er að sögn Halldórs til marks um bætt vinnubrögð í kjaraviðræðum, auk þess sem kerfið greiðir fyrir innleiðingu á lögbundnum jafnlaunastaðli.

Halldór kom í ávarpi sínu, á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í morgun, inn á stöðuna í kjaramálum. Blikur eru á lofti samfara stórum kjarasamningum sem losna á þessu ári og ljóst er að  niðurstaða úr þeim viðræðum getur ráðið miklu um framhaldið.

Kjarasamningar sambandsins gilda almennt út marsmánuð 2019, að undanskildum kjarasamningi við grunnskólakennara, sem rennur út í lok nóvember á þessu ári og kjarasamningi tónlistarskólakennara, sem gildir út mars á næsta ári. Viðræðuáætlun við grunnskólakennara gerir svo ráð fyrir að kjaraviðræður hefjist nú í október.

Halldór benti jafnframt á að aðilar vinnumarkaðarins hafi unnið markvisst að því að bæta vinnubrögð við kjarasamningsgerð. Mikilvægt sé að sú vinna haldi áfram og skili sameiginlegri niðurstöðu. Með því móti megi stuðla að þroskaðri vinnumarkaði en verið hefur hér á landi í áratugi.  

Í máli Halldórs kom jafnframt fram að starfsmatskerfi sveitarfélaga stendur um þessar mundir styrkum fótum eftir markvissar endurbætur á kerfinu og stoðum þess, en samkvæmt kjarasamningum á endanlegt mati á störfum háskólamanna að liggja fyrir þann 1. júní á næsta ári.

Þá hefur starfsmatskerfið sannað sig í tenglum við jafnlaunastaðal sem leiddur var nýlega í lög. Hefur Hafnarfjarðarbær rutt brautina fyrir önnur sveitarfélög í þessum efnum með  jafnlaunavottun á launakerfi sitt samkvæmt staðlinum.

·       Sjá upptöku af ávarpi formanns