Fjármagn til barnaverndar aukið með nýrri framkvæmdaáætlun

Á meðal markmiða framkvæmdaáætlunar í barnavernd 2019-2022 er að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum. Gert hefur verið ráð fyrir 600 m.kr. fjáraukningu til þess að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu í málaflokknum.

Ný framkvæmdaáætlun í barnavernd var samþykkt á Alþingi sem þingsályktun nú skömmu fyrir þinglok.

Á meðal markmiða áætlunarinnar, sem er til fjögurra ára, er að efla grunnvinnslu barnaverndarmála á fyrstu stigum, stuðla að snemmtækri íhlutun, auka samvinnu ríkis og sveitarfélaga og fjölga gagnreyndum úrræðum.

Gert hefur verið ráð fyrir 600 m.kr. fjáraukningu til málaflokksins til að byggja upp og þróa úrræði og þjónustu.

Félagsmálaráðuneytið, Barnaverndarstofa og barnaverndarnefndir sveitarfélaga munu vinna samkvæmt áætluninni með það meginmarkmið barnaverndarlaga að leiðarljósi, að tryggja viðunandi uppeldisskilyrði barna og að börn, sem búa við óviðunandi aðstæður eða eru í hættu hvað heilsu þeirra og þroska snertir, fái þá aðstoð sem þau þurfa.

Nýja framkvæmdaáætlunin er liður í heildarendurskoðun í málefnum barna og eru vonir bundnar við, að með henni náist betri heildarsýn og þar með samfella í þeirri þjónustu og þeim úrræðum sem standa börnum og foreldrum til boða.

Samráð var haft við fag- og hagsmunaaðila í barnavernd við gerð áætlunarinnar, auk þess sem tekið var mið af þeirri þróun, sem orðið hefur í þjónustu við börn og meðferðarúrræðum, er leggja áherslu á samfélagsþátttöku barna. Þá var einnig tekið mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, samningi Evrópuráðsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og misnotkun ásamt öðrum alþjóðlegum skuldbindingum ríkisins á þessu sviði.

Þess má svo geta að nýja framkvæmdaáætlunin skiptist niður í eftirfarandi átta stoðir:

A. Samstarf og heildarsýn í málefnum barna
B. Breytingar á barnaverndarlögum
C. Snemmtæk íhlutun og fyrirbyggjandi aðgerðir
D. Stuðningur vegna barna á fósturheimilum
E. Meðferð alvarlegs hegðunar- og vímuefnavanda
F. Bætt verklag í barnavernd
G. Kannanir, rannsóknir og gæðamat
H. Eftirfylgni og innleiðing breytinga