Fjárhagsstaða sveitarfélaga versnar til muna

Árshlutauppgjör stærstu sveitarfélaganna fyrir fyrri hluta árs 2020

Í frétt um afkomu sveitarfélaga sem birt var í gær slæddist villa í útreikningi á rekstrarafgangi. Hér er leiðrétt frétt. Beðist er velvirðingar á þessum mistökum. 

Sveitarfélögum er ekki skylt að birta árshlutauppgjör um rekstur og efnahag. Hins vegar ber sveitarfélögum sem gefið hafa út skuldabréf sem skráð eru í kauphöll að birta slík uppgjör.  Fjögur af fimm stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarkaupstaður og Akureyrarbær hafa birt árshlutauppgjör fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman uppgjör þessara sveitarfélaga, en í þeim búa nær 220 þús. manns, eða tæplega 60% landsmanna.

Þessi uppgjör sýna mikinn umsnúning til verri vegar í rekstri sveitarfélaganna. Helstu atriðin er varða A-hluta sveitarfélaga eru þessi:

  • Heildartekjur eru 1,6% lægri en á sama tíma í fyrra,  sem er lækkun um 3,9% á föstu verðlagi.
    • Tekjufallið er mest í Reykjavíkurborg, um 2,6%, sem skýrist ekki síst af samdrætti í sölu byggingarréttar, sem fært er undir þjónustutekjur og aðrar tekjur.
  • Skatttekjur hækka lítillega frá sama tíma í fyrra, eða um 0,7%.
    • Skatttekjur hækka í öllum sveitarfélögunum nema í Hafnarfjarðarkaupstað en þar er um að ræða lækkun um 0,1%. Skatttekjur Akureyrarbæjar hækka um 3,2% og um 0,3% í Reykjavík.
  • Framlög jöfnunarsjóðs lækka um 2,2% vegna lægri tekna sjóðsins af skatttekjum ríkissjóðs.
    • Lækkunin er mest hjá Kópavogsbæ, eða um 13%.
  • Á sama tíma aukast útgjöld um 4,6%, þar af laun og tengd gjöld um 6,7%.
    • Gjaldfærð áætluð breyting lífeyrisskuldbindinga lækkar milli ára í Reykjavík og Hafnarfirði, en án þessarar gjaldfærslu hækka útgjöld um 6%.
    • Launakostnaður hækkar mest hjá Reykjavíkurborg, um 7,6% en minnst á Akureyri um 4,1%.
  • Rekstrarafgangur sem var 0,9 ma.kr. á fyrstu 6 mánuðum 2019 (1% af tekjum) snýst í halla upp á  5,5 ma.kr. (4,9%) ári síðar. Viðsnúningurinn nemur 6,4 ma.kr.
    • Langmestur er hallinn hjá Akureyrarbæ eða sem nemur 10,8% af tekjum.
  • Veltufé frá rekstri á fyrri helmingi árs 2020 er 64% minni en á sama tíma árið áður.
    • Rekstur skilaði 3,1 ma.kr. (3,1% af tekjum) veltufé en 8,6 ma.kr. á sama tíma 2019 (9,2% af tekjum).
    • Akureyrarbær skilar neikvæðu veltufé sem nemur 1,6% af tekjum sbr. við jákvætt veltufé um 2,3% af tekjum á sama tíma árið áður.
    • Umskiptin eru hvað mest í Reykjavíkurborg, veltufé frá rekstri nemur 3,1% af tekjum en var 10,8% á sama tíma í fyrra.
  • Samdráttur fjárfestingar er verulegur eða 18,9% frá sama tíma í fyrra.  
    • Minnstur er samdrátturinn hjá Reykjavíkurborg eða 3,7%.
    • Hjá minni sveitarfélögum eru ætíð nokkrar sveiflur milli ára sem rekja má til einstakra stórra fjárfestingaverkefna.
    • Vegna faraldurs kórónuveirunnar hefur undirbúningur margvíslegra framkvæmda á vegum sveitarfélaga tafist. Þrátt fyrir samdrátt fjárfestingar miðað við sama tíma í fyrra reikna sveitarfélögin með að fjárfestingar verði að mestu í samræmi við fjárhagsáætlanir. 
  • Á fyrstu sex mánuðum ársins tóku þessi sveitarfélög 9 ma.kr. lán til langs tíma og greiddu 2,2 ma.kr. í afborganir af langtímalánum. Lántökur umfram afborganir voru því  6,8 ma.kr. Á sama tíma í fyrra námu lántökur 2,1 ma.kr. umfram afborganir. 
  • Skuldir og skuldbindingar námu í lok júní 2020 223 ma.kr. og hækka um 10,2 ma.kr. frá áramótum.
  • 219,5 þús. íbúar áttu lögheimili í þessum fjórum sveitarfélögum í lok júní á þessu ári og fjölgaði um 1,6% frá sama tíma í fyrra.
  • Samkvæmt Vinnumálastofnun töldust að meðaltali 118 þús. manns vera starfandi í þessum sveitarfélögum á fyrstu sex mánuðum ársins. Á sama tíma í fyrra töldust 122,5 þús. starfandi. 4,5 þús. voru atvinnulausir í fyrra, en rösklega tvöfalt fleiri eða 9,6 þús. í ár. Atvinnuleysi hefur aukist úr 3,6% í 7,5% af vinnuafli.  

Í meðfylgjandi töflum eru dregnir saman helstu þættir í hálfsáruppgjöri sveitarfélaganna fjögurra.

Tafla 1. Úr rekstrarreikningi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 1. Úr rekstrarreikningi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 2. Úr sjóðstreymi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 2. Úr sjóðstreymi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 3. Kennitölur, hlutföll af tekjum
Tafla 3. Kennitölur, hlutföll af tekjum