Fjárhagsstaða sveitarfélaga versnar enn

Árshlutauppgjör stærstu sveitarfélaganna fyrir fyrri hluta árs 2021

Fjögur af fimm stærstu sveitarfélögum landsins, Reykjavíkurborg, Kópavogsbær, Hafnarfjarðarbær og Akureyrarbær hafa birt árshlutauppgjör fyrir fyrstu sex mánuði þessa árs. Sveitarfélögum er ekki skylt að birta árshlutauppgjör um rekstur og efnahag. Sveitarfélögum sem gefið hafa út skuldabréf sem höndlað er með í kauphöll ber hins vegar skylda til að birta slík uppgjör. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman uppgjör þessara sveitarfélaga, en í þeim bjuggu rösklega 221 þús. manns, eða tæplega 60% landsmanna.

Þessi uppgjör eru til marks um erfiða rekstrarstöðu og aukinn halla sveitarfélaga, þrátt fyrir auknar tekjur.

Við samanburð á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna á sama tíma árið áður þarf að hafa í huga að fyrstu sóttvarnaraðgerðirnar tóku gildi í mars 2020 og hafa því einungis áhrif á hluta af fyrstu sex mánuðum ársins. Hins vegar voru margvíslegar takmarkanir vegna sóttvarna í gildi á fyrstu sex mánuðum þessa árs sem hafa haft í för með sér aukin útgjöld.Heildartekjur voru 11,8% hærri en á sama tíma árið áður.

Hækkunin var mest í Reykjavík og skiptir þar mestu meiri sala byggingaréttar og aukning annarra eignatekna.

 • Skatttekjur hækkuðu um 8,9%.
  Hækkunin var nokkuð svipuð í þessum sveitarfélögum.  
 • Framlög jöfnunarsjóðs hækkuðu aðeins um 1,4%.
  Framlög til Kópavogsbæjar og Hafnarfjarðarbæjar lækkuðu nokkuð,  en jukust um 3,9% til Akureyrarbæjar.
 • Útgjöld hækkuðu um 13,7%, þar af hækkuðu laun og tengd gjöld um 16,3%.
  Launakostnaður hækkaði mest hjá Hafnarfjarðarbæ, um 18,1% en minnst hjá Akureyrarbæ, um 7,5%.
  Gjaldfærð áætluð breyting lífeyrisskuldbindinga hækkaði um 19,3%
 • Halli á rekstri nær tvöfaldaðist milli ára, fór úr 5,6 ma.kr. í 10 ma.kr. 
  Halli var á rekstri allra sveitarfélaganna í heild sem nemur 8,9% af tekjum, samanborið við 5,6% á sama tíma í fyrra.
  Mestur var hallinn á rekstri Reykjavíkurborgar, 10,4% af tekjum.  
 • Veltufé frá rekstri á fyrri helmingi árs 2021 var neikvætt um sem nemur 2,2% af tekjum.
  Til samanburðar var veltufé frá rekstri jákvætt um 3,1% á sama tíma í fyrra.
  Veltufé frá rekstri Reykjavíkurborgar var neikvætt um 3,2 ma.kr. eða 4,6% af tekjum. Veltufé Hafnarfjarðarbæjar var einnig neikvætt um 2% af tekjum.  
  Akureyrarbær og Kópavogsbær skiluðu hins vegar jákvæðu veltufé sem nemur 3,7% af tekjum.
 • Fjárfesting jókst um 6,9% í krónum talið milli ára en lækkar sem hlutfall af tekjum.
  Á fyrstu 6 mánuðum 2019 nam fjárfesting þessara sveitarfélaga rösklega 10% af tekjum en tveimur árum síðar aðeins 7,9%.
  Fjárfestingar Akureyrarbæjar og Reykjavíkurborgar eru meiri en á sama tíma í fyrra en minni í hinum sveitarfélögunum.   
 • Afborganir og lántaka. Aðeins Reykjavíkurborg tók langtímalán á fyrstu sex mánuðum ársins að fjárhæð 12,2 ma.kr. Afborganir langtímalán námu 3,3 ma.kr. Nettólántaka sveitarfélaganna námu því tæpum 9 ma.kr., samanborið  við 6,4 ma.kr. á sama tíma í fyrra.  
 • Skuldir og skuldbindingar námu í lok júní 2021 tæpum 250 ma.kr. og hækkuðu um 13,9 ma.kr. frá áramótum, eða um 5,9%.
 • Íbúar. 221.670 áttu lögheimili í þessum fjórum sveitarfélögum í lok júní 2021 og fjölgaði um 1% frá sama tíma í fyrra.
 • Starfandi. Samkvæmt Vinnumálastofnun töldust að meðaltali 114 þúsund manns vera starfandi í þessum sveitarfélögum á fyrstu sex mánuðum ársins, en rösklega 115 þúsund á sama tíma í fyrra, sem er fækkun um 1,1%.  
 • Atvinnulausir. Í þessum 4 sveitarfélögum voru að meðaltali 11,8 þúsund atvinnulausir, skv. Vinnumálastofnun  á fyrstu sex mánuðum ársins, en 8,7 þúsund. á sama tíma í fyrra. Fjölgunin nemur 3,2 þúsund, eða 37%.    

Í meðfylgjandi töflum eru dregnir saman helstu þættir í hálfsáruppgjöri sveitarfélaganna fjögurra.

Tafla 1. Úr rekstrarreikningi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 2. Úr sjóðstreymi fjögurra sveitarfélaga
Tafla 3. Kennitölur, hlutföll af tekjum