Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga 2019-2022

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið samantekt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 71 sveitarfélags af 72, en í þessum sveitarfélögum búa nærfellt allir íbúar landsins. Samantektin tekur eingöngu til A-hluta sveitarfélaga og snýr því að þeirri starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur unnið samantekt um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Um er að ræða fjárhagsáætlanir 71 sveitarfélags af 72, en í þessum sveitarfélögum búa nærfellt allir íbúar landsins.

Samantektin tekur eingöngu til A-hluta sveitarfélaga og snýr því að þeirri starfsemi sem er að hluta eða öllu leyti fjármögnuð af skatttekjum. Til B-hluta heyra stofnanir sveitarfélaga, fyrirtæki og aðrar rekstrareiningar sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu sveitarfélaga og eru reknar sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar. Í B-hluta er til dæmis að finna veitur, hafnir, sorpeyðingu og félagslegt húsnæði.

Helstu niðurstöður eru þær að sveitarfélögin gera ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A-hluta verði lítið betri á árinu 2019 en fjárhagsáætlun 2018 fól í sér, eða sem nemur 2,5% af tekjum í stað 2,2%. Þriggja ára áætlanir 2020-2022 taka mið af spám um hagvöxt og samkvæmt áætlunum munu tekjur hækka í takt við spár um hagvöxt. Gangi áætlanir eftir mun rekstrarafgangur fara vaxandi sem hlutfall af tekjum og verða 5% árið 2022.

Áætlanir benda til að veltufé frá rekstri verði um 9,4% af tekjum árið 2019. Það er svipað og í fjárhagsáætlun 2018. Veltufé frá rekstri mun hækka umfram tekjur næstu árin skv. 3ja ára áætlunum. Þannig er reiknað með að hlutfall veltufjár og tekna verði komið upp í 11,3% árið 2022.

Áætlanir sveitarfélaga gera enn fremur ráð fyrir að fjárfestingar verði um 45 ma.kr. 2019, sem er 2% hækkun. Þá fela áætlanir í sér að fjárfestingar muni dragast saman á árunum 2020-2022.

Í ljósi áforma um fjárfestingar munu sveitarfélögin taka ný langtímalán í ár sem nemur hærri fjárhæðum en afborganir af slíkum lánum. Skuldir og skuldbindingar munu þó lækka sem hlutfall af tekjum, verða 104,9% árið 2019, en 106,2% samkvæmt fjárhagsáætlun 2018. Í þriggja ára áætlunum sínum reikna sveitarfélögin með að skuldahlutfall A-hluta lækki enn og verði 94% árið 2022.

Hvað útsvarsálagningu varðar, þá nemur að meðaltali 14,44% á árinu 2019 sem er óbreytt frá fyrra ári. Fasteignaskattshlutfall lækkar á bæði íbúðar- og atvinnuhúsnæði og má gera ráð fyrir að sveitarfélögin séu með þessu móti að bregðast við hækkandi fasteignaverði.

Þá sýnir útkomuspá stærstu sveitarfélaganna betri afkomu á árinu 2018 en fjárhagsáætlanir gerðu ráð fyrir og jafnframt meiri fjárfestingar. 

Fjárhagsáætlunum sveitarfélaga 2019-2022 eru gerð nánari skil í nýútgefnu fréttabréfi hag- og upplýsingasviðs. Samantektin er unnin upp úr fjárhagsáætlunum þeirra sveitarfélaga sem skilað hafa áætlunum rafrænt inn í gagnaveitu sveitarfélaga, sem vistuð er hjá Hagstofu Íslands.