19. jan. 2016

Umsagnir um húsnæðisfrumvörp

Eins og kunnugt er fjallar velferðarnefnd Alþingis nú um fjögur frumvörp sem ætlað er að innleiða framtíðarskipan húsnæðismála. Öll frumvörpin hafa snertifleti við sveitarfélögin og hefur sambandið nú látið í té umsagnir um þau.

Veigamesta umsögnin snýr að frumvarpi til laga um almennar íbúðir, en meginefni þess fjallar um stofnframlög sem ríki og sveitarfélög taka að sér að veita í þágu uppbyggingar á íbúðarhúsnæði sem leigt verður út á félagslegum forsendum. Í umsögninni bendir sambandið á allmörg atriði sem þurfi að skýra við meðferð málsins og varða sérstaklega sveitarfélögin og fyrirtæki/stofnanir þeirra. Sérstök áhersla er lögð á þá breytingu að stofnframlag njóti lögveðsréttar í þeirri íbúð sem framlagið er veitt til í stað þess að hafa stöðu í veðröð fyrir aftan áhvílandi fasteignaveðlán eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.

Breytingartillaga sambandsins er rökstudd með því að fyrirkomulagið jafngildi ella ríkisábyrgð á þeim lánum sem framar hvíla og leiði til þess að áhætta lánveitenda verði hverfandi, þar eð mestar líkur séu á að það verði fyrst og fremst ríki og sveitarfélög sem tapa sinni veðtryggingu ef íbúð er seld nauðungarsölu. Einnig myndi frumvarpið að óbreyttu auka hættuna á því að aðilar sem ekki ætla sér að starfa til framtíðar við rekstur leiguíbúða sæki um stofnframlög. Í verstu tilvikum gæti þar verið um að ræða aðila sem ekki stefna að því að fullgera íbúðirnar í samræmi við kostnaðaráætlun og sem verði til þess að stofnframlög gagnist ekki þeim hópum leigjenda sem að er stefnt. Að mati sambandsins er nauðsynlegt að koma í veg fyrir slíka mögulega misnotkun stofnframlaga.

Jafnframt er bent á að mikil umsýsla geti fylgt því fyrirkomulagi að þinglýsa þurfi veði fyrir stofnframlögum á hlutaðeigandi íbúðir.

Frumvarp til laga um húsnæðisbætur er nú til endurtekinnar meðferðar á þingi. Brugðist hefur verið við mörgum ábendingum sambandsins og fleiri aðila um breytingar á frumvarpinu. Umsögn sambandsins um nýja gerð frumvarpsins er því tiltölulega stutt en í henni er lögð megináhersla á skattalega meðferð þess húsnæðisstuðnings sm sveitarfélögin munu veita einstaklingum til framtíðar. Sá húsnæðisstuðningur tekur við af sérstökum húsaleigubótum sem hafa verið undanþegnar skattskyldu til þessa. Fer sambandið fram á að sama gildi áfram um húsnæðisstuðning sveitarfélaga skv. nýjum lögum, enda þótt heitinu verði breytt.