20. des. 2017

Tryggja verður í fjárlögum og fjármálaáætlun 30% kostnaðarhlut ríkisins í NPA

Nýr velferðar- og jafnréttisráðherra, Ásmundur Daði Einarsson, átti fyrsta fund sinn með fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga í síðustu viku. Voru aðkallandi mál í Grábókinni, eins og kostnaðarhlutur ríkisins í NPA, ofarlega á blaði ásamt öðrum brýnum verkefnum á velferðar- og jafnréttissviði.

Á meðal brýnustu verkefna er skipan  samráðsnefndar um ábyrgðar- og verkaskiptingu opinberrar þjónustu, en vonir eru bundnar við að með þeirri nefnd megi fækka þeim málum sem ratað hafa á síður Grábókarinnar.

Grábókin dregur nafn sitt af verkefnum sem lenda á gráu svæði á milli ríkis og sveitarfélaga og voru á fundinum rædd m.a. málefni barna með fjölþættan vanda, staða sjúklinga í öndunarvél í heimashúsum og notendastýrð persónuleg aðstoð, NPA.

Sambandið leggur jafnframt áherslu á að ríkið tryggi í fjárlögum og í fjármálaáætlun ríkissjóðs 30% kostnaðarhlut í öllum NPA-samningum, auk þess viðbótarfjármagns sem þarf vegna fjölgunar samninga.

Þá voru húsnæðismál, að sögn Karls Björnssonar framkvæmdastjóra sambandsins, einnig rædd, m.a. hvað aukið framboð varðar á hentugu íbúðarhúsnæði, aðgengilegar greiningar á þróun húsnæðismarkaðar, fasteignasjóð innan Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og skammtímaleigu íbúðarhúsnæðis  fyrir ferðamenn, svo að það helsta sé nefnt.

Síðast en ekki síst var svo lagt til, að haldnir verði tveir vinnnufundir á ári með þátttöku ráðherra og helstu sérfræðinga hans, til að tryggja reglulegt samráð aðila um sameiginleg verkefni ríkis og sveitarfélaga og eftirfylgni við aðgerðaáætlun um fækkun grárra svæða í velferðarþjónustu.