25. sep. 2015

Sveitarfélag láni til íbúðakaupa?

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, upplýsti á fjármálaráðstefnunni að í forystusveit sveitarfélagsins hefði verið hreyft hugmynd um að það láni ungu fólki fyrir útborgun í íbúð í tilteknum tilvikum.

Þetta kom fram í almennum umræðum um fjármál og rekstur sveitarfélaga.

„Ég hef fengið fyrirspurnir frá ungu fólki sem spyr hvort bæjarfélagið geti lánað því fyrir fyrstu útborgun í íbúð. Það borgar kannski 150-250 þúsund krónur á mánuði í húsaleigu og treystir sér því til að greiða af 20 milljóna króna húsnæðisláni en á ekki fyrir útborgun til að festa sér íbúð,“ sagði bæjarstjórinn.

„Ég hef rætt í mínum hópi hvort við eigum að taka upp á því að lána sjálf fyrir fyrstu útborgun og tryggja að þessir íbúar ílendist í bæjarfélaginu. Bankarnir lána ekki nema viðkomandi standist greiðslumat og það er í mörgum tilvikum mjög erfitt.“