13. okt. 2017

Stefnt að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði

Íbúðalánasjóði hefur verið falið að grípa til sérstakra aðgerða vegna erfiðrar stöðu á leigumarkaði. Í frétt á vef Íbúðalánasjóðs kemur fram að útgreiðsla húsnæðisbóta verður m.a. færð frá Vinnumálastofnun til Íbúðalánasjóðs. Umsýsla á sértækum húsnæðisbótum verður áfram hjá sveitarfélögum.

Þá verður leigufélag stofnað um íbúðir sem Íbúðalánasjóður hefur eignast við nauðungarsölu, en skv. nýrri könnun sem sjóðurinn lét gera er hlutfall fólks á leigumarkaði enn að aukast. Verða íbúðirnar leigðar út gegn hóflegri leigu.

Markmið þessara aðgerða er að gera Íbúðalánasjóði kleift að stuðla að auknu jafnvægi á húsnæðismarkaði.

Sértæku húsnæðisbæturnar verða áfram hjá sveitarfélögum, sem sáu einnig um umsýslu almennra húsnæðisbóta eða húsaleigubóta, eins og bæturnar nefndust, fram að síðustu áramótum. Að mati Sambands íslenskra sveitarfélaga eru þessar breytingar til bóta. Nærtækara sé að Íbúðalánasjóður sjái um almennu húsnæðisbæturnar fremur en Vinnumálastofnun.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, mæltist til þess í byrjun júlí sl. að Íbúðalánasjóður hætti við sölu um 300 íbúða og eru nú tæplega 500 íbúðir í eigu sjóðsins. Þar af eru um 2/3 hlutar í útleigu, í mörgum tilvikum hjá fyrrverandi eigendum íbúðanna. Að sögn ráðherra verður kannað hvort þessar íbúðir geti í framhaldinu orðið að svokölluðum leiguheimilum, þ.e. íbúðir sem eru keyptar eða byggðar með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum. Um tímabundna aðgerð er að ræða, en stefnt er að því að íbúðir leigufélagsins verði annað hvort í umsjá hlutaðeigandi sveitarfélaga eða tilheyri nýju kerfi leiguheimila sem byggir á opinberum stofnframlögum.

40% leigjenda nýta rétt sinn til húsnæðisbóta

Varðandi flutninginn á húsnæðisbótum frá Vinnumálastofnun til Íbúðalánasjóðs, þá verður farið í sérstakt átak til að auka útgreiðslur til fólks á leigumarkaði. Í nýrri leigumarkaðskönnun hagdeildar sjóðsins, sem gerð var í ágúst og september sl., kemur fram að leigjendur greiða að meðaltali 41% tekna sinna í húsaleigu og sumir jafnvel meira. Þrátt fyrir það nýta einungis 40% leigjenda rétt sinn til húnæðisbóta og virðast umtalsverðar hækkanir á bæði bótum og tekjuviðmiðum ekki hafa skilað sér sem skyldi til leigjenda. Fjögurra manna fjölskylda gæti sem dæmið verið að fara á mis við 540 þús.kr. húsnæðisbætur á ári.  

Húsnæðisstuðningur við leigjendur er sameiginlegt verkefni ríkis og sveitarfélaga. Verkaskiptingin er þannig að ríkið veitir grunnstuðning í gegnum húsnæðisbætur, en sveitarfélög bæta við stuðninginn ef félagslegar aðstæður eru erfiðar. Mikilvægt er að tryggja samfellu í þessum stuðningi og hafa sveitarfélögin kallað eftir því að umsýsla húsnæðisbóta af hálfu ríkisins verði á sömu hendi og annar húsnæðisstuðningur, þ.e. hjá Íbúðalánasjóði.

Hlutlaus greining á þróun húsnæðismála

Þá verður Hagdeild Íbúðalaunasjóðs falið að gera hlutlausa greiningu á þróun húsnæðismála og miðla niðurstöðum þeirra til almennings. Sjóðurinn mun svo einnig sjá um samræmingu nýrra húsnæðisáætlana sveitarfélaga og útdeilingu fjár í formi stofnframlaga til óhagnaðardrifinna byggingarverkefna.

Umræddar aðgerðir byggja á tveimur nýjum reglugerðum sem ráðherra undirritaði fyrir skömmu.