31. des. 2010

Nýjar reglugerðir vegna yfirfærslu á þjónustu við fatlað fólk

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640
Félags- og tryggingamálaráðuneytið hefur sett nýja reglugerð, nr. 1054/2010, um þjónustu við fatlað fólk á heimili sínu. Nýja reglugerðin tekur gildi á morgun, 1. janúar 2011 og leysir þá af hólmi eldri búsetureglugerð.

Þau atriði sem varða sérstaklega yfirfærslu til sveitarfélaga koma einkum fram í ákvæðum 14., 15. og 16. gr. um stærð og gerð húsnæðisúrræða fyrir fatlaða og í ákvæði til bráðabirgða II, varðandi meðferð gildandi leigusamninga. Vakin er athygli á því að sveitarfélög og byggðasamlög um þjónustu við fatlaða eru þjónustuaðilar í skilningi reglugerðarinnar. 

Þá hefur samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið sett tvær reglugerðir sem varða hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í tengslum við yfirfærsluna. Báðar reglugerðirnar hafa verið birtar. Annars vegar er reglugerð nr. 1066/2010, um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað fólk á árinu 2011. Hins vegar reglugerð nr. 1067/2010, um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Þessar reglugerðir taka gildi á morgun, 1. janúar 2011, en efni þeirra er í samræmi við efni heildarsamkomulags ríkis og sveitarfélaga um yfirfærsluna.