25. feb. 2015

Frumvarp um virka velferðarstefnu – umsagnir sveitarfélaga

  • PPP_PRD_132_3D_people-Puzzle

Félagsmálaráð Akureyrar hefur sent inn umsögn varðandi þær breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi. Ráðið fagnar framkomnu frumvarpi og styður virka velferðarstefnu í þá veru að vinnufærir einstaklingar á fjárhagsaðstoð fái markvissara inngrip með hvatningu til þess að fara út á vinnumarkaðinn. Jákvætt sé að settur sé meiri rammi utan um fjárhagsaðstoðina til þess að minnka líkur á að fólk sé látið afskiptalaust til lengri tíma, en fái þess í stað strax tilboð um aðstoð við atvinnuleit eða starfstengda endurhæfingu.

Ráðið bendir ennfremur á að nauðsynlegt er að byggja upp traust á því samhæfða fyrirkomulagi virkni og stuðnings sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Lögð er áhersla á nána samvinnu við Vinnumálastofnun, auk þess sem nauðsynlegt er að efla samstarfið við heilsugæslu / heilbrigðiskerfið og Virk starfsendurhæfingarsjóð.

Sambandið vinnur nú að umsögn um frumvarpið og þegar hún liggur fyrir verður hún kynnt fyrir sveitarfélögum. Um leið vill sambandið hvetja stjórnendur og kjörna fulltrúa, einkum í félagsmála- og velferðarnefndum, til þess að senda inn umsagnir til þingsins um frumvarpið.