05. feb. 2015

Virk velferðarstefna

Félags- og húsnæðismálaráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi á Alþingi um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, sem að stofni til eru frá árinu 1991. Málið á sér langan aðdraganda sem rekja má allt aftur til áranna 1996 - 1997 þegar fram fór endurskoðun á lögunum í kjölfar efnahagslægðar áranna 1992 - 1994, en þá fjölgaði viðtakendum fjárhagsaðstoðar mjög eftir að tímabili atvinnuleysisbóta sleppti.

Við þessa endurskoðun (1996 – 1997) lögðu fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga til að inn í lögin kæmi ákvæði um að sveitarstjórn væri heimilt í reglum um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að setja „almenna skilmála fyrir fjárhagsaðstoð“ eins og það var orðað. Var ætlunin að bregðast við óvissu sem upp hafði komið varðandi heimildir einstakra sveitarfélaga til að binda fjárhagsaðstoð almennum skilyrðum. Tillagan náði ekki fram að ganga en eftir sem áður var út frá því gengið að viss skilyrðing fjárhagsaðstoðar væri iðkuð og hefði verið lengi athugasemdalaust með það að markmiði að koma í veg fyrir að stórir hópar fólks festust inn á fjárhagsaðstoð sveitarfélaga til langframa.

Þróunin frá 1997 var sú að viðtakendum fjárhagsaðstoðar fækkaði þegar frá leið en á móti kom veruleg fjölgun í hópi öryrkja. Þannig fjölgaði í hópi örorkulífeyrisþega um 2.000 manns á árabilinu frá 1997 til 2001. Aftur varð efnahagslægð á árunum 2001- 2003 með stórauknu atvinnuleysi.  Nýgengi örorku tók stórt stökk í kjölfarið, árið 2003 og áfram. Var afleiðingin sú að í lok árs 2005 hafði öryrkjum fjölgað um 3.000 frá 2001. Svipuð þróun hélt áfram árin á eftir og var fjöldi örorkumatsúrskurða á bilinu 1.100 - 1.300 á ári 2004 til 2006.

Efnahagskreppan sem reið yfir á árinu 2008 hafði mikil áhrif á öll opinber stuðningskerfi eins og sjá má af stórfelldri fjölgun í hópi þeirra sem eru viðtakendur fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga. Sú fjölgun er í samhengi við lengd atvinnuleysisbótatímabilsins. Einnig fjölgaði í hópi öryrkja og nam fjölgunin um 3.500 manns á tímabilinu frá árslokum 2005 til ársloka 2011. Á hinn bóginn vekur athygli að örorkumatsúrskurðum hefur ekki fjölgað að sama skapi á allra síðustu árum og áður var. Þannig fjölgaði örorkulífeyrisþegum einungis um 1.000 frá desember 2011 til 3. ársfjórðungs 2014. Er staðan að því leyti mjög ólík því sem var þegar frá leið þeim efnahagslægðum sem riðu yfir í lok tíunda áratugar 20. aldar og við upphaf þessarar aldar.  

Það frumvarp sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur nú lagt fram á Alþingi er unnið í samvinnu við sambandið og felur í sér að eyða óvissu sem enn hefur gert vart við sig um heimildir einstakra sveitarfélaga til að binda fjárhagsaðstoð almennum skilyrðum. Jafnframt eru lagðar til aðrar breytingar á lögunum m.a. til þess að stuðla að samræmi í reglum einstakra sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð.  

Sambandið er sammála þeirri útfærslu sem frumvarpið gerir ráð fyrir og væntir þess að lagabreytingar muni hafa jákvæð áhrif gagnvart þeim sem óska eftir fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Er þá sérstaklega horft til þess að mun færri en áður verða fyrirsjáanlega taldir uppfylla skilyrði fyrir því að fá framfærslu sína varanlega í gegnum lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins eftir að fjárhagstoð sleppir. Nauðsynlegt er að bregðast við þeirri stöðu með því að sveitarfélögin stuðli mun kröftugar að því en áður að fólk festist ekki inni á fjárhagsaðstoð til langframa.

Meginefni frumvarpsins snýr einnig að því að efla samstarf Vinnumálastofnunar og félagsþjónustu sveitarfélaga um málefni þess hóps sem býr við langtímaatvinnuleysi. Að mati sambandsins verður að tryggja samfellu milli stuðningskerfa þannig að vinnufærum einstaklingi sem fullnýtir rétt sinn til atvinnuleysisbóta standi áfram til boða sú aðstoð - og eftir atvikum aðhald - sem hann bjó við innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Í því efni ber fyrst og fremst að horfa til einstaklingsins sjálfs og þess stuðnings sem hann þarf til þess að sjá sér og sínum farborða, fremur en telja aðstoð sveitarfélaga gagnvart þessum hópi vera af einhverjum öðrum meiði en sú sem önnur opinber framfærslukerfi veita.

Virk velferðarstefna í þessum anda stuðlar þannig að því að aðstoða einstaklinga og fjölskyldur til sjálfshjálpar og er það í fullu samræmi við meginreglur félagsþjónustulaganna frá 1991.