28. nóv. 2014

Viðurkenningar fyrir æskulýðsstarf

  • Verðlaunahafar

Æskulýðsráð veitir viðurkenningar í æskulýðsstarfi árið 2014. Viðurkenningarnar eru ætlaðar til að vekja athygli á því sem er til fyrirmyndar í æskulýðsstarfi á Íslandi og vera hvatning til þróunar, nýsköpunar og þátttöku. Í flokknum aðilar sem sinnt hafa nýsköpun eða þróun í æskulýðsstarfi hlýtur Hitt Húsið fyrir Músíktilraunir.

Músíktilraunir

Músíktilraunir hafa í gegnum árin átt ómetanlegan þátt í að stuðla að nýsköpun og þróun í  tónlistarlífi ungs fólks og verið einn aðalvettvangur fyrir ungt fólk á aldrinum 13 – 25 ára til að koma tónlist sinni á framfæri.  Músíktilraunir hafa í gegnum árin gefið ungu tónlistarfólki tækifæri til þess að sýna við bestu aðstæður ríkulega tónlistarmenningu ungmenna og ekki síður gefið samfélaginu góða mynd af jákvæðu og uppbyggilegu menningar- og æskulýðsstarfi. Margir af okkar fremstu tónlistarmönnum eiga Músiktilraunum frama sinn og velgegni að þakka.

Músíktilraunir hafa jafnframt verið stór þáttur í tónlistarlífi Íslendinga almennt. Upphafið má rekja til samstarfs Tónabæjar og SATT (Sambandi alþýðuskálda og tónlistarmanna) sem m.a. stóðu fyrir maraþontónleikum í kjallara Tónabæjar í nóvember 1982. Tilraunirnar voru haldnar í Tónabæ, sem var allt til ársins 2000 staðsettur í Skaftahlíð 24, Reykjavík, en þá flutti Tónabær sig í Safamýrina. Til gamans má geta að á fyrstu Músíktilraunirnar kostaði heilar 50 kr. inn.

Oft er talað um að Músíktilraunir hafi verið stökkpallur fyrir ungar og óreyndar hljómsveitir út í hinn „harða tónlistarbransa.“ Hljómsveitir á borð við Kolrössu Krókríðandi, Botnleðju, Maus, Mínus, xxx Rotwiler hunda, Jakobínurínu, Agent Fresco og síðast en ekki síst Of Monsters and Men eru ágætis vitnisburður um að ýmis ævintýri taka við að loknum tilraununum. Margar af þessum ofangreindu hljómsveitum stukku ofan í djúpu laugina að loknum Músíktilraunum. Þær tóku upp sínar fyrstu breiðskífur, fóru í hljómleikaferðalög til fjarlægra landa, spiluðu með heimsfrægum hljómsveitum, urðu heimsfrægar og upplifðu „rokkdrauminn“ á ýmsa vegu.

Að sjálfsögðu má svo ekki gleyma öllum þeim hljómsveitum og tónlistarmönnum sem ekki endilega náðu áfram í úrslit. Það er ekki síst reynslan og samveran við aðra tónlistarmenn sem er svo verðmæt og mikilvægur þáttur fyrir þá sem taka þátt. Nýjar hugmyndir og hljómsveitir spretta upp og blómstra í íslensku tónlistarflórunni. Það er einmitt einn helsti tilgangur Músíktilraunanna.

Þá er skemmtileg staðreynd að fyrsta hljómsveitin til að stíga á stokk í Músíktilraunum 1982, var kvennahljómsveitin Sokkabandið, en oft hefur verið fjallað um skort á þátttöku stúlkna í þessum tilraunum. Það hafa þó nokkuð oft verið stúlknasveitir sem hafa komist í úrslit, eða unnið, eins og til dæmis Dúkkulísurnar, Kolrassa Krókríðandi, Á Túr, Mammút, Spelgur o.fl.