19. nóv. 2014

Víðtæk uppstokkun í stjórnsýslu velferðarmála

  • PPP_PRD_132_3D_people-Puzzle

Fyrir Alþingi liggja nú tvö frumvörp sem snerta stjórnsýslu velferðarmála, annars vegar um nýja þjónustumiðstöð á sviði félags- og heilbrigðisþjónustu, og hins vegar um nýja úrskurðarnefnd sem m.a. er ætlað að leysa úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála af hólmi. Sambandið hefur sent inn umsagnir um bæði frumvörpin enda snerta þau sveitarfélögin með beinum hætti. Bent er á að þessi tvö mál séu liður í víðtækri uppstokkun í stjórnsýslu velferðarmála, sem m.a. taki til hugmynda um nýja stjórnsýslustofnun á sviði félagsþjónustu og barnaverndar þar sem starfsemi Barnaverndarstofu, Fjölmenningarseturs og réttindagæslumanna fatlaðs fólks eru m.a. til skoðunar. Einnig unnið að heildarendurskoðun laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og laga um málefni fatlaðs fólks, auk þess sem kynnt hafa verið frumvörp um innleiðingu meginreglna Evrópuréttar um bann við mismunun, einkum á vinnumarkaði.  

Í umsögnum sínum lýsir sambandið eftir því að löggjafinn leggi ákveðnar línur til framtíðar um megindrætti í stjórnsýslu velferðarmála þar sem sérstaklega verði hugað að því að slíkar kerfisbreytingar leiði í reynd til betri þjónustu fyrir notendur. Er þar m.a. vísað til umfjöllunar í félagsþjónustunefnd sambandsins fyrr á þessu ári, en nefndin taldi að leggja þyrfti áherslu á vandaða lagalega umgjörð svo að ekki verði til ný grá svæði í þjónustunni. Brýnt sé að verkaskipting ríkis og sveitarfélaga verði skýr og þjónustustigið sambærilegt um land allt.

Umsagnir fjármála- og efnahagsráðuneytis fylgja báðum fyrirliggjandi frumvörpum þar sem farið er yfir kostnaðaráhrif gagnvart ríkissjóði. Sambandið gerir athugasemdir við þessar umsagnir, og sérstaklega hvað varðar fjárhagsramma nýrrar þjónustumiðstöðvar, sem ætlunin er verði til með sameiningu Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins (GRR) við Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga.  Í því tilviki gerir ráðuneytið ekki ráð fyrir að útgjöld við þjónustuna muni aukast í teljandi mæli heldur megi ætla að sameinuð stofnun geti nýtt sér það svigrúm sem myndast við sameininguna til þess að standa undir aukinni þjónustu við fullorðna einstaklinga.

Sambandið hafnar alfarið þessari niðurstöðu ráðuneytisins enda byggist hún ekki á neinni greiningu á því hversu margir einstaklingar muni nýta sér þá útvíkkuðu þjónustu sem áformuð er. Þá beri það vott um óskhyggju að rekstrarlegur ávinningur af sameiningu stofnana muni standa undir kostnaði við þau stöðugildi sem aukin þjónusta við fullorðna einstaklinga kallar á. Þvert á móti hafi komið fram við undirbúning málsins að verulegra viðbótarfjárveitinga væri þörf á komandi  árum svo næmi hundruðum miljóna króna. Afstaða ráðuneytisins gefi til kynna að viðhalda eigi því ástandi að notendur séu í bið eftir þjónustu svo mánuðum og misserum skiptir. Þá segir sambandið í umsögn sinni:

„Langir biðlistar eru algerlega óásættanlegir í jafnmikilvægri starfsemi og hér um ræðir og einboðið að nýrri stofnun verði strax í upphafi sniðinn stakkur eftir vexti. Þess vegna verður að svara þeirri spurningu hversu mikið viðbótarfjármagn þurfi til starfseminnar. Þar hljóta opinberir aðilar (ríki og sveitarfélög) að líta á ráðgjöf og hæfingu í víðum skilningi og út frá því sjónarmiði að slíkt starf í þágu einstaklinga sé líklegt til þess að skapa verulegan samfélagslegan ávinning. Af þeirri ástæðu ætti ekki að gera kröfu til þess að lykilstofnanir við ráðgjöf og hæfingu reki sig „innan ramma“ til skemmri tíma litið. Viðhorf til fjárveitinga ætti fremur að mótast af reynslu og því að útgjaldaauki, jafnvel þótt til lengri tíma sé, muni á endanum skila sér í aukinni virkni og framlagi einstaklinga til heildarinnar.“

Þá er einnig  vísað til reynslu sveitarfélaganna, m.a. af yfirfærslu málefna fatlaðs fólks, að umræða og vitund um bætt réttindi í velferðarþjónustu leiði til þess að stærstur hluti þess hóps sem í hlut á hverju sinni geri tilkall til þjónustu og láti reyna á væntingar sínar hvað það varðar.

Kostnaðarumsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis um nýja úrskurðarnefnd velferðarmála (sem til verður með sameiningu sjö kærunefnda) uppsker einnig athugasemdir frá sambandinu. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir 49,3 m.kr. viðbót inn í starfsemina á árinu 2015 telur sambandið sennilegt að það muni ekki duga til. Bent er á að úrskurðarnefndin sé í reynd ný ríkisstofnun og að starf forstöðumanns hennar muni að stærstum hluta verða stjórnunarstarf. Ennfremur er vísað til þess að sveitarfélögin hafi ekki góða reynslu af sameiningu kærunefnda. Vísað er til Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála (ÚUA) en þegar þeirri nefnd var komið á laggirnar árið 2011 var mjög varað við því  að fjölgun starfa við þá nefnd byggðist á algeru lágmarksviðmiði (tvö stöðugildi lögfræðinga og hálft stöðugildi ritara). Reynslan af starfi ÚUA er enda sú að útilokað hefur reynst að framfylgja lagaákvæðum um tímamörk við uppkvaðningu úrskurða (3 - 6 mánuðir). Meðal annars liggur fyrir að um síðustu áramót (2013/2014) voru enn 39 mál til afgreiðslu hjá ÚUA frá árinu 2012.  

Sambandið telur því miður að þessar viðvaranir eigi einnig við um tillögur um skipan og mönnun Úrskurðarnefndar velferðarmála:

„... og að sú nýja stofnun muni líða fyrir það sama og þær kærunefndir sem henni er ætlað að leysa af hólmi, þ.e. að úrskurðir séu ekki kveðnir upp innan lögmæltra fresta. Markmiðum frumvarpsins verði því ekki náð og sem leiði til athugasemda frá umboðsmanni Alþingis og öðrum þeim sem fylgjast með stjórnsýslu ríkisins, auk þess sem réttaröryggi verði áfram ótryggt. Leggja verður megináherslu á að hin nýja úrskurðarnefnd mun fjalla um margvísleg viðkvæm einstaklingsmál sem snerta afkomu og heilsu viðkomandi. Því er sú krafa réttmæt að biðtími eftir úrskurði sé eins stuttur og nokkur kostur er.“

Auk þessara athugasemda eru ýmsar ábendingar í umsögnum sambandsins, sjá nánar á meðfylgjandi slóðum: