27. maí 2014

Ný skýrsla um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga

Í skýrslunni er fjallað um skipulag fjárhagsaðstoðar í nágrannalöndunum Svíþjóð og Noregi, auk þess sem lítillega er vikið að stöðunni í Danmörku, Þýskalandi og Bretlandi. Gerð skýrslunnar er samvinnuverkefni hag- og upplýsingasviðs og lögfræði- og velferðarsviðs þar sem leitast er við að draga saman á aðgengilegan hátt megindrætti í þeirri aðstoð sem löndin veita þeim sem fullnýtt hafa rétt sinn til atvinnuleysisbóta og fá fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum.

Í öllum löndunum á sér stað samspil milli málefna vinnumarkaðarins og þeirrar aðstoðar sem sveitarfélögin veita ef sú staða kemur upp að einstaklingur eða fjölskylda hans nær ekki að framfleyta sér. Því fylgja bæði kostir og gallar að sveitarfélögin taki við þeim sem falla út af atvinnuleysisbótum og sinni þannig í reynd veigamiklu hlutverki í málefnum vinnumarkaðarins. Löndin fimm eiga sammerkt að beita í auknum mæli virkum (aktívum) aðgerðum til þess að koma í veg fyrir að viðtakendur festist til langframa á fjárhagsaðstoð eftir að atvinnuleysisbótum sleppir. Í þessum löndum hafa menn horfið frá þeim aðferðum að aðstoðin sé veitt með óvirkum (passívum) greiðslum sem stuðla að lífsmynstri sem erfitt getur reynst að brjótast út úr, sérstaklega fyrir ungt fólk.

Svonefndar „skilyrðingar“ eru meðal aðgerða sem gripið er til en þær fela í sér að viðtakandi fjárhagsaðstoðar sem hafnar starfi við hæfi eigi hvorki rétt til atvinnuleysisbóta né fjárhagsaðstoðar sveitarfélags. Rannsóknir sem fram hafa farið á aðgerðum í þessum löndum benda eindregið til að skilyrðingar hafi ótvíræð áhrif við að hvetja viðtakendur aðstoðar til þess að leita að vinnu og taka þátt í úrræðum sem þeir hafa á annað borð getu til þess að sinna.