15. nóv. 2013

Víðtækt endurmat vegna yfirfærslu málefna fatlaðra

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640


Vinna við endurmat á yfirfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga hefur staðið yfir undanfarna mánuði  en niðurstaða úr endurmatsferlinu á að liggja fyrir næsta sumar.   Endurmatið byggir á bæði faglegum og fjárhagslegum þáttum og er í samræmi við þau ákvæði sem er að finna í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá því í nóvember 2010, en sveitarfélögin yfirtóku þjónustu við fatlað fólk frá ársbyrjun 2011.

Í samkomulaginu um yfirfærsluna var gengið út frá því að rekstrarárin 2011-2013 yrðu reynslutími þar sem fengið yrði mat á faglegum  og fjárhagslegum  þáttum  verkefnisins og á forsendum endurmatsvinnu yrði gengið frá endanlegu samkomulagi um ákvörðun útsvarsstofns og heildarfjármögnun þjónustunnar. Upphaflega var gert ráð fyrir að hægt yrði að ná niðurstöðu um hlutfall útsvarsprósentunnar fyrir fjárlög komandi árs 2014, en  samkomulag liggur nú fyrir milli aðila um að sú ákvörðun verði tekin við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2015, þar sem vinna við endurmatið er viðameiri og tímafrekari en gert var ráð fyrir í upphafi.

Sérstök verkefnisstjórn heldur utan um endurmatsferlið og eiga sæti í stjórninni fulltrúar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga,  velferðar- , innanríkis- og fjármálaráðuneyti.   Meðal þess sem unnið er að  við endurmatið, er heildarsamræming á rekstraruppgjörum allra sveitarfélaga og þjónustusvæða  vegna málaflokks fatlaðra.  Niðurstöður fyrir rekstrarárið 2012 munu liggja fyrir á næstu vikum og fyrir yfirstandandi ár á komandi vori. Einnig er verið að gera úttekt á þróun launakostnaðar í málaflokknum frá ársbyrjun 2011.

Fyrir skömmu var sendur  til allra þjónustusvæða ítarlegur spurningarlisti um þróun og framkvæmd verkefnisins frá yfirtökunni.  Meðal annars á að skoða sérstaklega  væntanlegri þörf og þróun í búsetumálum, en það er einn kostnaðarsamasti hluti þjónustunnar. Umsjón með þessari  könnun er á hendi Sambands ísl. sveitarfélaga en undirbúningur var í góðu samráði við þjónustusvæðin og ráðuneytin.  Velferðarráðuneytið í samvinnu við Hagstofuna hefur það hlutverk að taka saman ítarlegar upplýsingar um sundurgreinda þjónustu við fatlaða fólk af hálfu sveitarfélaganna frá yfirfærslunni 2011.  Á komandi ári verður gerð sérstök stöðuúttekt á faglegum þáttum þjónustunnar til samanburðar við þá úttekt sem unnin var þegar yfirfærslan átti sér stað.

Með þessum víðtæku gögnum og upplýsingaöflun er stefnt að því að ná utan um stöðu fjárhagslegra og faglegra þátta á þeim tíma sem sveitarfélögin hafa haldið utan um þjónustu við fatlað fólk og meta þannig heildarfjárþörf og framtíðarþróun, sem forsendu fyrir samkomulagi um trygga fjármögnun til málaflokksins á komandi árum.