10. jan. 2013

Skýrsla um félagsþjónustu sveitarfélaga 2012

  • felagsthjonustuskyrsla2012

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur gefið út skýrslu sem nefnist „Félagsþjónusta sveitarfélaga árið 2012“. Markmiðið með útgáfu skýrslunnar er að birta tölulegar upplýsingar um þennan mikilvæga málaflokk og gera þær aðgengilegar fyrir sveitarstjórnarmenn, starfsmenn félagsþjónustu sveitarfélaga og aðra þá sem vilja fylgjast með því hvernig framkvæmd félagsþjónustunnar þróast. Í skýrslunni er fjallað um þá þætti sem miðlæg gagnaöflun nær yfir svo sem félagslega heimaþjónustu, fjárhagsaðstoð, barnavernd og húsnæðismál. Tölulegar upplýsingar ná til málaflokksins á landsvísu en þeim er einnig skipt niður eftir landshlutum. Að hluta til eru þær einnig flokkaðar eftir íbúafjölda sveitarfélaga. Upplýsingar í skýrslunni eru fengnar frá ýmsum opinberum aðilum s.s. Hagstofu Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndarstofu, Innheimtustofnun sveitarfélaga og Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

Þessu til viðbótar er að finna í skýrslunni ýmsan fróðleik sem lögfræði- og velferðarsvið Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman. Þar má nefna umfjöllun helstu þætti í félagsþjónustustarfi sambandsins,stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga 2011–2014 á sviði félagsþjónustu, yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og að auki umfjöllun um minnisblað með ábendingum í tengslum við fyrirhugaða tilfærslu þjónustu við aldrað fólk frá ríki til sveitarfélaga.

Skýrsluna vann Valgerður Freyja Ágústsdóttir, sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði Sambands íslenskra sveitarfélaga (valgerdur@samband.is).

Skýrsla um félagsþjónustu 2012 er fáanleg í prentuðu formi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga gegn gjaldi, eða 2.300 krónur (m.vsk.).
Til að panta prentað eintak af skýrslunni er bent á að hafa samband við Sigríði Ingu Sturludóttur í síma 515 4900 eða í gegnum netfangið
sigridur@samband.is.