18. des. 2012

Fyrirkomulag réttindagæslu fyrir fatlað fólk tekur á sig mynd

  • SIS_Felagsthjonusta_760x640


Átak í réttindagæslu var meðal þeirra stóru verkefna sem ákveðið var að ráðast í samhliða yfirfærslunni á málefnum fatlaðs fólks.

Réttindagæslan er verkefni ríkisins og er óðum að taka á sig mynd. Til grundvallar liggja lög um þetta efni sem upphaflega voru sett 2011 (nr. 88/2011) en á þessu ári var bætt við lögin kafla um aðgerðir til þess að draga úr þvingun og nauðung (nr. 59/2012). Viðbæturnar tóku gildi þann 1. október sl.

Velferðarráðuneytið hefur nú sett fjórar reglugerðir til nánari útfærslu á einstökum atriðum laganna:

  • Reglugerð um réttindagæslumenn fatlaðs fólks nr. 973/2012.
  • Reglugerð um persónulega talsmenn fatlaðs fólks nr. 972/2012.
  • Reglugerð um undanþágunefnd um bann við beitingu nauðungar gagnvart fötluðum einstaklingi nr. 971/2012.
  • Reglugerð um sérfræðiteymi um aðgerðir til að draga úr beitingu nauðungar í þjónustu við fatlað fólk nr. 970/2012.

Mörg nýmæli eru í reglugerðunum og eru starfsmenn í málaflokknum hjá sveitarfélögum og þjónustusvæðum hvattir til þess að kynna sér efni þeirra. Þá hefur velferðarráðuneytið auglýst eftir aðilum sem vilja taka að sér að vera persónulegir talsmenn fatlaðs fólks sem sjálfboðið starf í samræmi við ákvæði reglugerðar þar um. Athygli er vakin á því að í 6. gr. þeirrar reglugerðar er fjallað um að velferðarráðuneytið endurgreiði persónulegum talsmönnum sannanlegan kostnað sem þeir bera af störfum sínum fyrir fatlaðan einstakling. Er greitt fyrir launatap, ferðakostnað eða akstur samkvæmt akstursdagbók auk gistikostnaðar og annars kostnaðar sem sannanlega fellur til vegna aðstoðarinnar.

Þá hefur velferðarráðherra skipað fólk til setu í sérfræðiteymi og undanþágunefnd. Skipunartíminn er frá 15. nóvember 2012 til 14. nóvember 2016.

Réttindagæslumenn fatlaðra eru starfandi á öllum þjónustusvæðum og er m.a. ætlað að vera tengiliðir við innleiðingu á nýjum lögum. Stjórnendum þjónustusvæða er bent á að vera í sambandi við viðkomandi réttindagæslumenn til ræða fyrirkomulag, stað og stund fyrir kynningar.