16. nóv. 2012

Námskeið um framkvæmdaáætlanir í málefnum fatlaðs fólks

  • namskeid15112012

Fimmtudaginn 15. nóvember var haldið námskeið um framkvæmdaáætlanir í málefnum fatlaðs fólks. Fjallað var um hvaða þættir geri slíkar áætlanir árangursríkar, hvað beri að varast og hvernig eftirfylgni með árangri þeirra er best háttað. Umfjöllunin byggði á Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem bíður fullgildingar af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Námskeið var haldið af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í samstarfi við Rannsóknasetur í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands.

Aðalfyrirlesari á námskeiðinu var dr. Eilionóir Flynn, mannréttindalögfræðingur og fræðimaður við Centre for Disability Law and Policy, National University of Ireland í Galway á Írlandi. Hún hefur verið ráðgefandi fyrir þjóðþing Íra við lagasetningu um réttindi fatlaðs fólks og tengst starfi Sameinuðu þjóðanna að mannréttindum. Þá hefur hún unnið samanburðarrannsókn á framkvæmdaáætlunum í málefnum fatlaðs fólks í fjölmörgum löndum þar sem markmiðið var að kanna hvaða þættir gerðu slíkar áætlanir árangursríkar. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru kynntar á námskeiðinu, þær ræddar og dreginn af þeim lærdómur. Þá flutti Anna Arstein-Kerslake, sem einnig starfar við írska háskólann, erindi um 12. gr. Sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks, en sú grein fjallar um réttarstöðu til jafns við aðra og gerhæfi.

Námskeiðið var vel sótt og urðu líflegar umræður í vinnuhópum á seinni hluta þess. Sérstaklega var rætt um íslensku framkvæmdaáætlunina sem samþykkt var með þingsályktun á liðnu vori. Þjónustusvæðin í málefnum fatlaðs fólks vinna nú að undirbúningi aðgerða sem á grundvelli áætlunarinnar og geta í því efni haft hliðsjón af þeim atriðum sem fjallað var um.