13. feb. 2012

Fullt út úr dyrum á ráðstefnu um NPA

  • NPA 2012

Opin ráðstefna var haldin á Hótel Natura, föstudaginn 10. febrúar sl. á vegum verkefnisstjórnar um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Þar var kynnt hugmyndafræði, framkvæmd og skipulag slíkrar þjónustu. Ráðstefnan var einnig send út á netinu. Fullt var út úr dyrum og voru þátttakendur hátt í 400 manns, þar af fylgdust ríflega 100 manns með í gegnum vefútsendingu frá fundinum.

Verkefnisstjórnin var skipuð í apríl 2011 í samræmi við bráðabirgðaákvæði IV í lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992. Hlutverk hennar er að móta ramma um fyrirkomulag notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar og innleiða samstarfsverkefni ríkis, sveitarfélaga og heildarsamtaka fatlaðs fólks um innleiðingu þessarar tegundar þjónustu. Fulltrúar sambandsins í verkefnisstjórninni eru Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir Norðurlandi vestra, Áslaug María Friðriksdóttir Reykjavík og Gyða Hjartardóttir félagsþjónustufulltrúi sambandsins, sem jafnframt var ráðstefnustjóri.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu skulu sveitarfélög í samráði við verkefnisstjórnina leitast við að bjóða fötluðu fólki notendastýrða persónulega þjónustu í tiltekinn tíma. Verkefninu á að ljúka fyrir árslok 2014 með faglegu og fjárhagslegu mati á framkvæmd þess. Gert er ráð fyrir að sveitarfélögin geti sótt um styrki til greiðslu NPA samninga en gert er ráð fyrir 300 millj. í reynsluverkefnið á þessu tímabili.

Á ráðstefnunni var gerð grein fyrir stöðuúttekt á vinnu verkefnisstjórnarinnar og lýst verklagi á fyrsta áfanga verkefnisins. Sjá dagskrá.

Ráðstefnan byrjaði með því að Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra ávarpaði ráðstefnuna.